Tímarit Máls og menningar - 01.03.1977, Blaðsíða 33
Lér konungur
Englands, sigrast á herjum þeirra systra og koma Lír til valda að nýju.
Hann situr að ríkjum tvö ár enn, og gengur krúnan þá í arf til Kórdilju.
Það gerist „árið 54 fyrir stofnun Rómaborgar, þegar Usía drottnar í Júða-
ríki og Jeróbóam yfir Israel“. Hún stjórnar ríkinu fimm ár; en þegar
maður hennar er fallinn frá, gera systursynir hennar uppreisn gegn henni,
eyða mikinn hluta landsins, taka hana höndum og hafa í ströngu varð-
haldi. Hún var sem karlmaður skapi farin og brást við svo reiðilega, að
hún réð sér bana.
Ekki nægðu Shakespeare frumdrættir þeir sem í þessari sögn var að
finna. Þær hugmyndir sem hún vakti með honum, urðu til þess, að hann
leitaði uppi söguna af Glosturjarli og sonum hans til þess að fylgja eftir
gangi mála. Þá sögu sótti hann í Arkadíu eftir Philip Sidney, sem birzt
hafði fyrir aðeins tveim áratugum. Inn í söguna af gjafaranum mikla, sem
hlaut að launum vanþakklæti frá vondum dætrum sínum, er hann hafði
rekið frá sér dótturina góðu, fléttaði hann söguna af réttvísa hertoganum,
sem blekktur af rógi rekur frá sér góðan son sinn, en lætur vonda soninn
hrekja sig í slíkar hörmungar, að augun eru slitin úr höfði hans.
I sögu Sidneys hreppa nokkrir höfðingjar óveður mikið í konungsríkinu
Galasíu og leita skjóls í helli einum. Þar hitta þeir fyrir blindan öldung
og ungan mann, sem gamli maðurinn biður árangurslaust að leiða sig upp
á fjallstind, svo hann geti steypt sér niður og gert enda á líf sitt. Oldungur
þessi var áður þjóðhöfðingi í Pálagóníu, en fyrir „harðbrjósta vanþakklæti"
sonar síns óskilgetins er hann ekki aðeins rændur ríki sínu, heldur einnig
sjóninni. Bastarður þessi hefur illu heilli haft hann mjög á valdi sínu.
Að hans hvömm hefur hann skipað þjónum sínum að leita hins skilgetna
sonar síns út á skóg og vinna þar á honum. Sonur hans kemst undan,
gengur í herþjónustu erlendis og vinnur sér frama. En er hann fréttir hve
illa er komið fyrir föður sínum, heldur hann sem hraðast heimleiðis til
þess að vera honum hlíf í mótlætinu. Og gegn vilja sínum safnar hann
glóðum elds að höfði föður síns. Gamli maðurinn biður hina erlendu
höfðingja að gera örlög sín heyrinkunn, svo að ófarir sínar megi verða
hjartaprúðum syni sínum til fremdar, því að sæmdin sé hin eina umbun,
sem hann geti vænzt.
Leikritið gamla um Lír konung, sem Shakespeare fór að lesa, hafði fylgt
annálum Holinsheds einvörðungu. Það er fróðlegt þeim sem reynir að
spanna vænghafið á snilld Shakespeares. Þetta er barnalegur skáldskapur,
þar sem grófar útlínur sömu meginathafna og í verki Shakespeares lykja
23