Tímarit Máls og menningar - 01.09.1985, Page 74
Milan Kundera
Ferðaleikur
1.
Skyndilega sveiflaðist vísirinn á bensínmælinum í áttina að núll-
strikinu og ungi ökumaðurinn býsnaðist yfir því hvað bifreiðin gat
sopið. „Bara vonandi að við verðum ekki bensínlaus eins og
síðast," sagði unga stúlkan (um það bil tuttugu og tveggja ára
gömul) og rifjaði upp fyrir honum nokkra staði þar sem slíkt óhapp
hafði gerst. Ungi maðurinn sagðist nú ekki taka slíkt nærri sér, því
þegar hún væri með í förinni fyndist honum öll óhöpp verða
ævintýri líkust. Unga stúlkan var á annarri skoðun: þegar þau urðu
bensínlaus fjarri mannabyggðum leit hann svo á að það væri hún,
og hún ein, sem lenti í ævintýrum, því hann faldi sig og hún
neyddist til að beita og misbeita sínum kvenlega þokka: ná sér í bíl,
láta hann aka sér til næstu bensínstöðvar, stöðva síðan annan bíl og
koma aftur með bensínbrúsann. Ungi maðurinn sagði að bílstjór-
arnir sem tækju hana upp í hlytu að vera ansi fráhrindandi fyrst hún
talaði um erindið eins og kvöð. Unga stúlkan sagði (tilgerðarlega og
daðrandi) að fyrir kæmi að þeir væru býsna aðlaðandi, en hún gæti
því miður ekki notið þess með brúsann í fanginu og þess vegna væri
hún neydd til að skilja við þá án þess að hafa haft tíma til að byrja á
nokkrum sköpuðum hlut. „Skepna,“ sagði hann. Og hún svaraði
að ef einhver væri skepna þá væri það hann. Guð má vita hversu
margar ungar konur stöðvuðu hann á vegum úti þegar hann væri
einn á ferð! Hann ók áfram og tók um leið utan um hana og kyssti
hana á ennið. Hann vissi að hún elskaði hann og var afbrýðisöm.
Afbrýðisemin er heldur hvimleiður skapbrestur, en ef þess er gætt
að ofnota hana ekki (ef fólk kann sér hóf) er eitthvað við hana, þrátt
fyrir alla ókostina. Það fannst honum að minnsta kosti. Þótt hann
væri aðeins tuttugu og átta ára gamall fannst honum hann vera
336