Tímarit Máls og menningar - 01.09.1985, Side 76
Tímarit Máls og menningar
allar mannlegar verur í sinn hlut líkama sem aðeins væri einn af
milljónum staðlaðra líkama, rétt eins og hverjum og einum væri
úthlutuð ein íbúð meðal milljóna íbúða, allar eins í risastóru
fjölbýlishúsi; að líkaminn væri í raun hverfult og ópersónulegt
fyrirbrigði; ekkert annað en fjöldaframleiddur hlutur fenginn að
láni. Þetta endurtók hún fyrir sér í öllum hugsanlegum tilbrigðum
án þess þó að geta tamið sér þennan hugsunarhátt að fullu. Tví-
skipting sálar og líkama var henni framandi. Hún og líkami hennar
voru svo samtvinnuð að hún komst ekki hjá því að finna til hans
með angist.
Jafnvel þegar hún var með unga manninum fann hún til þessarar
angistar; hún var búin að þekkja hann í ár og var alsæl, eflaust
vegna þess að hann gerði ekki greinarmun á sál hennar og líkama
þannig að í návist hans gat hún lifað af lífi og sál. Hamingja þeirra
helgaðist af því að áðurnefnd tvískipting var ekki fyrir hendi, en
skammt er úr hamingju í tortryggni og hún var full tortryggni. Hún
hugsaði til dæmis oft með sér að til væru aðrar og girnilegri konur
(og lausar við kvíða) og að vinur hennar sem væri í vinfengi við
slíkar konur, og dyldi það ekki, myndi fara frá henni einhvern
daginn með einni þeirra. (Hann myndi eflaust lýsa því yfir að hann
væri búinn að fá sig fullsaddan af þeim, en hún vissi að hann var
ekki eins þroskaður og hann hélt sjálfur.) Hún vildi hafa hann
algerlega út af fyrir sig og vildi helga sig honum einum, en því
fullkomnar sem hún reyndi að gefa sig honum, því sterkari varð
tilfinningin um að hann færi á mis við kosti yfirborðskenndrar
ástar, kosti daðursins. Hún átaldi sjálfa sig fyrir að vera ófær um að
tengja saman léttúð og alvöru.
En þennan dag var hún laus við allar áhyggjur og létt í skapi.
Henni leið vel. Þetta var fyrsti frídagurinn þeirra (í heilt ár höfðu
allar hennar langanir beinst að þessu fimmtán daga fríi), heiðríkt
var (í heilt ár var hún búin að hafa áhyggjur af því að ekki yrði
heiðríkt) og hann var með henni. Þegar hann spurði „hvert ert þú
að fara?“ roðnaði hún og gekk í burtu orðalaust. Hún krækti hjá
afskekktri bensínstöðinni sem stóð þarna við veginn; á að giska
hundrað metrum lengra (í þá átt sem þau ætluðu) var skógarjaðar.
Hún tók strikið þangað og gaf sig á vald velsælu um leið og hún
338