Tímarit Máls og menningar - 01.12.1988, Síða 53
Hvað er póstmódernismi?
ar, einsog Christa Wolf hefur gert í Kassöndru og Svava Jakobsdóttir í Gunn-
laðarsögu.
Hversu mikilvæg er írónía sem einkenni hinnar póstmódernísku endur-
vinnslu? Irónía getur reynst óáreiðanlegur merkingargrundvöllur, því hún sér
ekki sjálf um að velja það sem hún skopast að, sem er það sama og færir henni
gildi. Sem dæmi um póstmóderníska afstöðu tekur Umberto Eco orðræðu
manns sem ann mjög „kúltíveraðri" konu en finnur að hann getur ekki sagt „ég
er friðlaus af ást til þín“ því að hann veit að Barbara Cartland er búin að skrifa
þessa setningu. I þrengingum sínum finnur maðurinn þá lausn að segja: „eins-
og Barbara Cartland myndi orða það, ég er friðlaus af ást til þín“.37 Irónían á
þá að endurleysa orðin úr fölsku sakleysi og reisa merkingu þeirra úr rúst. En
geta allar hefðir staðið undir „kúltíveraðri" íróníu? Getur ekki verið að sumir
hlutir séu hreinlega of flatneskjulegir til að við förum að nota þá í írónískum
tilgangi?
Einhverjir talsmenn póstmódernismans myndu líklega segja að spurningar
sem þessar endurspegluðu hámenningarafstöðu sem komin væri í þrot ásamt
módernismanum. Nú geta menn haft alla menninguna undir, því kemur ekki á
óvart að hugtakið plúralismi er farið að heyrast í auknum mæli í tengslum við
póstmódernisma. Búið er að kollvarpa hugmyndum um existensíalísk gildi, öll
höft eru hrunin og „allt gengur", svo notað sé orðalag sem oft heyrist. Og
þetta á ekki bara við um listir, því umræðan um póstmódernismann hefur einn-
ig snúist um það sem kalla mætti fagurfræði tíðarandans og sem slíkur hefur
hann kallað á almenna menningarrýni fremur en skilgreiningar innan takmark-
aðrar listastefnu. Póstmódernismi lítur oft út fyrir að vera í senn fagurfræði og
hugmyndafræði hins plúralíska samfélags.
Hugtakið plúralismi á sér tvímælalaust aðlaðandi hlið. Það bendir á umburð-
arlyndi og gagnkvæmt tillit og það getur borið uppi hugmyndir okkar um út-
ópíu, margradda samfélag sem virðir á jafnræðisgrundvelli starfsemi og framlag
allra einstaklinga og hópa. Það getur vel að merkja verið leiðarljós í fræði-
mennsku - í rannsókn þessari er t.d. reynt að gefa svolítið plúralíska mynd af
hugtakinu póstmódernismi. Hægt er að benda á listrænar hræringar sem virð-
ast einkennast af plúralisma. Eitt mesta afl í bókmenntalífi Vestur-Þýskalands
eftir seinni heimsstyrjöldina var „Gruppe 47“ og innan þess hóps urðu til hinar
fjölbreytilegustu bókmenntir, ýmist hefðbundnar eða tilraunakenndar.
En líktog hugmyndir um hjónasæng módernisma og raunsæis geta gleraugu
plúralismans orðið til þess að við missum sjónar á átökum ólíkra menningar-
afla. Meðal þeirra sem skrifað hafa um hið „póstmóderna ástand“ á breiðum
grunni er Frakkinn Lyotard sem ég vék að hér að framan. Hann telur þetta
ástand felast í dauða yfirgripsmikilla sögulegra skýringa eða „frumsagna“,
endalokum jafnt hugmyndakerfa eins og marxismans og almennra hugmynda
um framþróun mannsandans eða frelsisleit mannsins á vegum sívaxandi þekk-
ingarforða eða pólitískrar baráttu.38 Einsog sumir aðrir gamlir vinstrimenn í
443