Tímarit Máls og menningar - 01.12.1988, Page 56
Tímarit Máls og menningar
menningu almennt; hún er safn eftirmynda sem breytt hafa heiminum í „hýp-
erveruleika“.
Hann telur og að um þetta dugi ekki að setja fram hefðbundna félagsfræði
um afbrigðilega firringu, því þessi firring sé orðin manninum alveg eðlilegt
ástand. Jafnframt telur hann að marxískar kenningar um framleibslu sem tengi-
lið náttúru og menningar séu brostnar. Veruleiki okkar grundvallast á stöðugri
endurframleibslu eftirmynda sem ekki þurfa lengur fyrst og fremst að uppfylla
þarfir okkar. Nauðþurftir eru orðnar sjálfsagt aukaatriði í heimi sem byggist á
umframneyslu. Til að skapa þá gnótt sem blasir við neysluverum nútímans er
sífellt boðið upp á fjölskrúðugt samspil eftirmynda, tákna sem flotið hafa burt
frá röklegum uppruna sínum. Auglýsingaiðnaðurinn er ríkuleg uppspretta
slíkra tákna. Tökum einfalt dæmi um hjólbarðaauglýsingu sem auk gúmbarða
skartar kvenmanni í veigalitlum sundfatnaði. Hjólbarðar og þessi manneskja
virðast ekki eiga mikið saman að sælda. Samkvæmt hefðbundinni samfélags-
greiningu mætti skýra þetta með því að hjólbarðaauglýsingum sé beint til karl-
manna og konunni sé ætlað að fanga hið dýrmæta augnaráð þeirra.
En samkvæmt Baudrillard dugar sú skýring skammt, því í hýperveruleikan-
um er búið að samþykkja samflot eftirmynda úr svo óskyldum táknheimum.
Það er raunar fremur að „sundurleysið“ í auglýsingunni sem heildartákn vísi á
hinn ævintýralega og víðfeðma glundroða sem neysluveran getur speglað sig í,
glundroða sem spannar allar mótsagnir. Þessvegna eru stórmarkaðir ekki bara
staðir sem til hagræðingar bjóða upp á ýmsar vörutegundir, heldur líka alls-
herjartákn fyrir þá botnlausu hít sem þrá neysluverunnar er. Og það er hin
óseðjandi þrá mannsins eftir lífsfyllingu sem tekið hefur við af beinum þörfum
sem hvati í efnahagskerfi, menningu og boðskiptum. Til að vekja þessa þrá
þurfa eftirmyndirnar ekki að vísa á neitt eðlilegt inntak, því hlutverk þeirra er
einungis að txla með yfirborðinu. Þessi leikur tælandi yfirborðs og þrár gerir
jafnframt neysluveruna sjálfa að hlutveru eða viðfangi (,,objekti“) í heimi hýp-
erveruleikans.
Þeir sem hafa reynt að kyngja þessari hrikalegu mynd af samtímamenningu
okkar kunna nú að spyrja hver staða listarinnar sé í heimi sem þessum. Ef við
fylgjum þankagangi Baudrillards46 má álykta sem svo að í hýperveruleikanum
(sem er þá eiginlega póstsögulegur miðað við þann vestræna nútíma sem ég
lýsti snemma í þessari grein) sé listin ekki lengur aukaatriði í hápraktísku sam-
félagi. Hún er raunar fullkominn grundvöllur fyrir bruðltilveru samfélags sem
þarf ekki lengur að vera praktískt. Og sumir hafa einmitt litið svo á að póst-
módernismi felist meðal annars í skáldlegri fegrun hversdagsins. Og hefur listin
verið ásökuð, líktog trúarbrögðin, fyrir að bjóða upp á flótta frá hversdagslífi.
En nú eru það kannski listræn vinnubrögð sem ýta undir fólk að flýja inn í
hversdaginn, týna sjálfu sér í gnótt hans og myndríki. Er Kringlan ekki eitt
sundurlaust en þó samhangandi listaverk þar sem fólk getur látið sig fljóta
áfram í táknflæði neysluheimsins?
446