Tímarit Máls og menningar - 01.06.1992, Blaðsíða 11
að lifa eftir duttlungum hennar, þá er skáld-
ið ekki á flótta undan hinu kvenlega, heldur
stendur Þormóður ráðalaus andspænis
áminningu um þverstæðukennt hlutskipti:
Af því að skáldið er maður, þarf hann að
svala kynhvötinni og það er ekkert dular-
fullt við það. Og af því að maðurinn er
skáld, þarf hann efnivið í frásögn, en ekki
handan reynslu sinnar, heldur sækir hann
efniviðinn í sína eigin reynslu. Hann er hluti
af heiminum, af orðræðunni um heiminn,
en sér hvorki í gegnum sjálfan sig í heim-
inum, né það sem hann segir um hann. I
huga hans gæti því hvílt vitneskjan um
ágenga mótsögn: ástin getur tekið á sig
einskonar dauðamynd, alveg eins og hatrið
getur orðið kveikjan að lífi. Með þessu móti
reynir hann á sjálfum sér þverstæðu mann-
kyns: ástin, friðurinn og algleymið eru ekki
óþrjótandi efniviður í frásögn af afrekum, á
meðan hatrið, garpskapur og árásargirnd
eru allt þættir sem stuðlað geta að frásögn
af tilvist manns.
í þessum skilningi vekur hið kvenlega
ekki ótta skáldsins, heldur ástin/hvötin
sjálf. Ohugnaðurinn er ástin, en kemur ekki
í stað hennar. Það er vegna þess, að þráin
eftir „skilyrðislausri viðurkenningu og
ótakmarkaðri ást“ fellur sjálfkrafa í skugg-
ann fyrir annarri og mun flóknari þrá;
þránni eftir vitnisburði um tilvist manns,
einhverju merki þess að maðurinn sé ekki
dýr, heldur skynsemisvera. (Astin hefur til-
hneigingu til þess að grafa undan þeirri
hugmynd, enda mætir maðurinn oft smæð
sinni einmitt þar). Það að garpskapurinn
stuðli að frásögn af tilvist manns í mun
ríkara mæli en ást, samruni, hamingja eða
friður, er því mun harmrænna viðfangsefni
en flótti hetju, skálds og konungs undan
hinu kvenlega.
Gerpla er nefnilega saga mannkyns, al-
veg eins og Þormóður er bundinn af samfé-
lagi sínu öllu. Hin freudíska hugmynd um
að mann-dýrið geti fundið jafnvægi með
af-bælingu og valið síðan ást í stað haturs,
skynsemi í stað villimennsku, frið í stað
stríðs, sannleika í stað blekkingar og al-
gleymi í stað heimsendis, getur með engu
móti rúmað móthverfur sögunnar. Á sama
hátt geta ofangreindir valkostir ekki rúmað
þverstæðu mannsins, þá þverstæðu sem
móthverfur sögunnar greina frá. Eins og
ástin getur verið dauði og hatur líf, þá getur
villimennska verið skilyrði fyrir frásögn af
skynsemisveru.
Vist Þormóðs hjá grænlensku veiði-
mannaþjóðinni er áhugaverð í þessu sam-
hengi, en hægt væri að nefna samfélag þetta
eina „friðgóða hérað“ sögunnar, svo ólíkt
er það samfélaginu sem elur hetjur, kon-
unga, skáld og Krist. Sérstaka athygli vekja
ástin, friðurinn, jafnræðið, réttlætið ogjafn-
vel sú hamingja sem ríkja innan þess. Og
túlkandi gæti með góðu móti litið á menn-
ingu þessarar þjóðar sem svar við hruni
annarrar, þeirrar menningar sem elur á ást-
leysi, hatri og endalausu dauðastríði. En
veruleiki veiðimannsins er einhver napr-
asta dauðamynd allrar frásagnarinnar,
handan draums og blekkingar, einungis ein-
litar endurtekningar sem aldrei geta orðið
efniviður í frásögn af afrekum. Og ef við
viljum fínna hliðstæða mynd, þá ber sælu-
vist skáldsins í Ögri líklega hæst. Slík er
dirfska, en jafnframt harmur sögunnar.
Ástarhugmynd hins nýja femínisma, sem
mér sýnist ekki eingöngu vera freudísk (eða
freudísk-natúralísk), og þar með erfingi
bælingartilgátunnar og vandamála hennar,
heldur einnig og ekki síður rómantísk, jafn-
vel trúarleg, getur ekki rúmað móthverfur
TMM 1992:2
9