Skáldskaparmál - 01.01.1994, Page 9
Spássíukrot?
Mælendamerkingar í handritum
eddukvæða og miðaldaleikrita1
TERRY GUNNELL
Þeir sem lesa eddukvæðin í fyrsta skipti hljóta að taka eftir fjölbreytni þeirra, enda
er orðið „eddukvæði" notað sem samheiti yfir kvæði sem eru ólík að aldri, stíl,
orðaforða og frásagnaraðferð. Reyndar er skipuleg röðun kvæðanna í Konungsbók
frekar villandi og gefur ranglega í skyn að þau myndi eins konar sameiginlega
heild. Það sem einkum greinir kvæðin að eru ólíkir bragarhættir. Þetta sést best
ef borin eru saman kvæði sem voru ort undir fornyrðislagi annars vegar og
ljóðahætti hins vegar. Samhliða ólíkum bragarháttum eru oft notaðar tvær
mismunandi frásagnaraðferðir: í mörgum kvæðanna er notuð venjuleg þriðju
persónu frásagnaraðferð þar sem samtöl og ræður eru tengd með frásögn sögu-
manns, allt í bundnu máli. í þessum kvæðum eru oft svokallaðar „blandaðar vísur“
þar sem fyrstu tvær ljóðlínurnar eru kynning á ræðumanni sem þá tekur við í
beinni ræðu. Til dæmis:
Þá kvaðþað Þrymur,
þursa drottinn,
„Berið inn hamar,
brúði að vígja,
leggið Mjöllni
í meyiar kné,
vígið okkur saman
Várar hendi!“ (Þrymskviða 30 v.).
Þeim sem hlusta á kvæðið er haldið í vissri fjarlægð frá atburðarásinni. Þeim er
sagt frá því sem gerðist annars staðar.
í öðrum kvæðum, sem flest voru ort undir ljóðahætti, eru hvorki blandaðar
1 Þessi grein er að stofni til fyrirlestur sem var fluttur fyrir Félag íslenskra fræða, miðvikudaginn
17. febrúar 1993, og byggir að miklu leyti á þeim rannsóknum sem liggja að baki doktorsrit-
gerðar minnar (Leeds 1991). Endurbætt útgáfa doktorsritgerðarinnar verður gefin út í Cam-
bridge, Englandi í árslok 1994 undir heitinu The origins ofdrama in Scandinavia. Ég þakka konu
minni, Þorbjörgu Jónsdóttur, og Ragnhildi Richter og Steingrími Þórðarsyni, samkennurum
mínum í Menntaskólanum við Hamrahlíð, ómetanlega hjálp við að leiðrétta málfar mitt. Ég vil
líka þakkaSverri Tómassyni, Jónasi Kristjánssyni ogStefáni Karlssyni (Árnastofnun, Reykjavík),
Jonnu Louis-Jensen (Árnastofnun, Kaupmannahöfn), Rory McTurk (Háskólanum í Leeds),
Jóni Hnefli Aðalsteinssyni (Háskóla íslands) og Kees Samplonius (Háskólanum í Amsterdam)
fyrir aðstoð þeirra og ábendingar við ritun þessarar greinar. Að lokum þakka ég Vísindasjóði
fslands fjárhagslegan stuðning.
SKÁLDSKAPARMÁL 3 (1994)