Skáldskaparmál - 01.01.1994, Qupperneq 45
Sannyrði sverða 43
allt frá dögum Árna Magnússonar verið eignaðar fleiri íslendingasögur en nokkr-
um öðrum sagnaritara.9 Sviðsetningar eru áberandi í íslendinga sögu. Þeim er
beitt á markvissan hátt til að draga fram þau atriði frásagnarinnar sem sagnarit-
arinn vill leggja hvað mesta áherslu á. Öðru er á hinn bóginn sleppt eða hratt farið
yfir sögu. Þannig leggur sagnaritarinn mat á atburði. Bent hefur verið á að Sturla
færi sér mjög í nyt drauma, m.a. til að magna spennu.10 Einnig beitir hann
endurtekningum og forspám þegar koma þarf til skila mikilvægi atburða eða orða.
Vísur eru notaðar við að byggja upp dramatíska frásögn og auka spennu.11 Þó að
Sturla felli sjaldan sjálfur dóma yfir tilteknum gjörðum hendir að hann komi á
framfæri óbeinum siðaboðskap gegnum almannaróm (með formúlum eins og
„var það orð á“) og einstaklinga sem eru vitrir og njóta sérstakrar virðingar, til að
mynda í frásögninni af vígi Tuma Sighvatssonar (sjá bls. 60) og enn frekar í lýsingu
Sturlu á Sauðafellsför eða Flugumýrarbrennu. Ekki má heldur gleyma því að fyrir
kemur að Sturla leggi sjálfúr út af atburðum og felli dóma (t.a.m. eftir Flugumýr-
arbrennu, 642). Oftast kemur hann þó boðskap sínum óbeint á framfæri. Hann
sviðsetur atburðina og lýsir þeim þannig að lesendur geta sjálfir fellt dóm um þá.
Sagnfræðingar deildu lengi um hvort Sturla Þórðarson tæki afstöðu til einstakra
manna og atburða og gat það skipt höfuðmáli við aðgreiningu sögunnar. Björn
M. Ólsen taldi að sögunni lyki árið 1242 en eftir það hefði frásögn Sturlungu
verið samsett úr Svínfellinga sögu, Þórðar sögu kakala og sögu sem hann nefnir
Gissurar sögu og Skagfirðinga. Meginrök hans voru þau að Sturla gæti ekki hafa
skrifað um Gissur af jafn hlýjum hug og hluttekningu og gert sé í þessum hluta
sögunnar, einkum þar sem frásögn hans fyrr í sögunni beri allvíða merki um kala
til Gissurar.12 Pétur Sigurðsson andmælti þessu. Hann áleit að Sturla léti persónu-
lega óvild ekki stýra frásögn sinni af Gissuri, heldur léti atburðina tala sínu máli
og málsatvik víða í sögunni væru Gissuri í óhag. Björn taldi frásögnina af vígi
Sturlu Sighvatssonar í Örlygsstaðabardaga einkennast af hatri til Gissurar en Pétur
var á þeirri skoðun, eins og raunar Finnur Jónsson áður, að Sturla legði allt kapp
á að segja sem réttast frá. Mismunur á lýsingu Gissurar í Örlygsstaðabardaga og
Flugumýrarbrennu stafaði einfaldlega af ólíkum málsatvikum.13
9 Guðrún Ása Grímsdóttir, „Sturla Þórðarson", Sturlustefna, Reykjavík, 1988, bls. 29-30. Auk
þess: Matthías Johannessen, Bókmenntaþattir, Reykjavík, 1985, bls. 261-370.
10 RobertJ. Glendinning, „Tráume und Vorbedeutung in der íslendingasaga Sturla Thordarsons.
Eine Form- und Stiluntersuchung", Kanadische Studien zur deutschen Sprache und Literatur,
Bern und Frankfúrt a.M, 1974.
11 Gunnar Benediktsson, Sagnameistarinn Sturla, bls. 156 og 159. Um vísur til uppbyggingar
spennu í Islendingasögum, sjá Hallvard Mageroy, „Skaldestrofer som retardasjonsmiddel i
Islendingesogene,“ Sjötíu ritgeriir helgaðar Jakobi Benediktssyni 20. júli 1977, Reykjavík, 1977.
Ennfremur Guðrún Ingólfsdóttir, „Um hlutverk vísna í íslendinga sögum,“ Skáldskaparmál, 1,
1990, bls. 233-237.
12 Björn M. Ólsen, „Um Sturlungu", Safn tilsögu íslands ogíslenzkra bókmenta, III, Kaupmanna-
höfn, 1897, bls. 310-383.
13 Pétur Sigurðsson, „Um íslendinga sögu Sturlu Þórðarsonar", Safn til Sögu íslands og íslenzkra
bókmennta, VI, 2, Reykjavík, 1933-1935, bls. 13-20. Hér verður ekki fjallað nánar um
aðgreiningu sögunnar en hugmyndir Péturs og Jóns Jóhannessonar („Um Sturlunga sögu,“