Skáldskaparmál - 01.01.1994, Síða 66
64 Ármann Jakobsson
fundið mörg sameiginleg einkenni með þessum bardaga og þeim á Örlygsstöðum
sem sýna að þeirra mati að Sturla hafi ætlast til að menn settu þessa atburði í
samhengi hvorn við annan.73 Óneitanlega hafa þeir nokkuð til síns máls en það
á ekki aðeins við um þessa tvo atburði. Lesandanum er einnig ætlað að að setja í
samhengi Sauðafellsför og víg Vatnsfirðinga, víg Tuma Sighvatssonar og Gríms-
eyjarför, Örlygsstaðabardaga og Flugumýrarbrennu og pyntingar Sturlu Sighvats-
sonar á Órækju og manna Gissurar á líki Sturlu. Hver einasti ofbeldisverknaður
sögunnar gengur aftur þegar þeir sem beittu ofbeldi verða sjálfir fyrir því af hendi
annarra.
Lýsingin á lífláti Vatnsfirðinga hefst á viðvörun, þekktu minni úr fornsögum.
Líkt og hetjur íslendingasagnanna kjósa Þorvaldssynir að virða hana að vettugi
og halda ótrauðir áfram enda hefur Snorri Sturluson mælt fyrir griðum þeim til
handa. Hinn ungi Snorri Þorvaldsson tekur nú til máls í fyrsta skipti eftir að hafa
þagað í Sauðafellsför allri og sýnir þá þegar að hann á fleira sameiginlegt með
Illuga, bróðir Grettis, en ungan aldur. En þó er eins og á sveininn renni tvær
grfmur næsta morgun þegar hann kveður „margt hafa fyrir borið um nóttina.“
(335) Þórður, bróðir hans, telur hins vegar ekki marka skyldu drauma og sýnir
þar með að hann er feigur því að Sturla Þórðarson er trúaður á drauma og í hans
sögu neita þeir einir sem feigir eru að taka mark á þeim, eins og sést enn betur
síðar í sögunni þegar Sturla Sighvatsson vaknar að morgni Örlygsstaðabardaga og
kveður ekkert mark að draumum (430).
Enn magnast spennan í frásögninni þegar einn fylgdarmanna Vatnsfirðinga
heilsar upp á Sturlu Sighvatsson og segir tíðindi þessi en er þá læstur inni í stofu
og rændur vopnum. Þannig gerir sagnaritarinn Sturla þeim sem á söguna hlýða
smám saman ljóst hverjar fyrirætlanir nafna hans eru. ísfirðingar eru hins vegar
grunlausir ennþá en tala þó um „er þeir riðu fyrir neðan bæinn að þar væri allt
kyrrlegt og fámennt væri heima.“ (336) Það er ekki laust við að lesandinn finni
hjörtu þeirra slá hraðar er þeir líta aftur augum bæinn sem þeir réðust á eina
dimma vetrarnótt þremur árum áður. En líkt og hver eggjaði annan í þeim flokki
áður þá hughreystir hver annan nú með þvf að tala um hve rólegt allt virðist vera
á Sauðafelli. Síðan æja þeir hjá stakkgarði nokkrum í hlíðinni ofan frá Hundadal.74
Nú færist fjör f leikinn. Menn koma til Sturlu og þeir ríða af stað sextán saman.
Spennan eykst stöðugt er Sturla segir Halldóri frá Kvennabrekku draum sem ekki
verður túlkaður á annan veg en að hann eigi sigur vísan gegn Vatnsfirðingum.
Skiptir þá enn um svið og vfkur sögu upp til stakkgarðarins þar sem menn ræða
„hvort mannaför væri upp með fjallinu“ (336) og Þórálfur nokkur stingur heldur
bjartsýnn upp á því að Sauðfellingar séu á leið til laugar. Sturla gerir lesendum
hins vegar ljóst að Þorvaldssynir láta sér ekki segjast með stuttri setningu: „Þeim
bræðrum varð margtalað um mannaferðina.“ (336) Lesandinn finnur kvíðann
73 Glendinning, „Traume und Vorbedeutung", bls. 202-222; Úlfar Bragason, „Hetjudauði Sturlu
Sighvatssonar," Skímir, 160, 1986, bls. 67.
7^ Þessi stakkgarður gengur síðan aftur í gerðinu á Örlygsstöðum, sbr. Úlfar Bragason, „Hetjudauði
Sturlu Sighvatssonar," bls. 67.