Skáldskaparmál - 01.01.1994, Page 73
Sannyrði sverða
71
að láta mann nokkurn spyrja Kolbein unga: „Viltu árna sveininum griða, Þórði
frænda þínum?“(423). Þannig ítrekar hann einnig kaldlyndi Kolbeins unga sem
kýs bæði að virða æsku og ættarbönd að engu. Þessi lýsing er hæg og áhrifamikil
því að hér er sögulegur atburður á ferð. Hér er veldi Sturlunga hnekkt. Til að
kóróna niðurlægingu þeirra er öxi Sighvats notuð til verksins.
Dauði Sturlu Sighvatssonar er í fullu samræmi við líf hans. Bræðrungur hans
gerir lesendum sínum þegar í upphafi sögu Ijóst að Sturla er maður sem ferðast
og ferst með sverði sínu. „Hann heitir Vígsterkur,“ sagði draummaður Guðnýjar
Böðvarsdóttir um Sturlu Sighvatsson nýfæddan (188). Skáldið kýs að velja nafna
sínum annað nafn þegar við fæðingu þannig að fæðing, lífsferð og dauði hans
myndi eina heild. Síðan lýsir sagnaritarinn stigvaxandi ofsa frænda síns uns hann
skilur við hann blóðugan og klæðlausan á Örlygsstöðum.87 A yfirborðinu er dauði
hins vígsterka Sturlu Sighvatssonar jafn ömurlegur og líf hans. Hann er ekki
hetjudauði því að ofbeldismaðurinn er ekki hetja. En fyrir vígamanninn Sturlu
Sighvatsson verður dauðinn skírsla. Hann gengur sjálfviljugur í dauðann og
hreinsar sig af fyrri ofbeldisverkum með eigin blóði. Og þó að ekki sé hægt að tala
um dauða Sturlu sem hetjudauða þá er það í dauðanum sem hugprýði og
hetjulund Sturlu kemur skýrast fram. í ósigri hans felst jafnframt hans mesti sigur.
9. VígSnorra
En á Sturlungaöld falla fleiri en vígamenn. Ófriður og ofbeldi aldarinnar kemur
ekki síst niður á saklausum, rétt eins og ófriður og ofbeldi allra tíma. Það er ekki
bara hinn vígsterki Sturla Sighvatsson sem verður honum að bráð heldur sá
friðsamasti af öllum höfðingjum Sturlungaaldar og sá ríkasti af Sturlungum.
Maðurinn sem kaus að safna auði og völdum með mágsemdum fremur en ófriði,
maðurinn sem „sannaði það að mágar hans væru eigi smámenni.“ (305) Einnig
lagamaðurinn og skáldið Snorri Sturluson verður ofbeldinu að bráð í húmi
þessarar myrku aldar. Það er kaldhæðni örlaganna að höfðinginn sem hugðist
treysta veldi sitt með mágsemdum skuli að lokum láta lífið fyrir mönnum fyrrum
tengdasonar síns. Það er kaldhæðni örlaganna að höfðinginn sem fór til Noregs,
gerðist lendur maður konungs og hélt sig að sið útlendra fyrirmanna skuli að
lokum láta lífið að skipun þess sama konungs. Eflaust er mesta kaldhæðnin þó sú
að fyrsti íslendingurinn sem veginn er fyrir drottinsvik við Noregskonung skuli
öðrum fremur hafa orðið til þess að halda nafni Noregskonunga á lofti um aldir.
Mörgum hefúr þótt að Snorra Sturlusyni væri heldur illa lýst í Islendinga sögu
og jafnvel anda köldu í hans garð.88 Ekki virðist mér þó lýsing hans á vígi hans
87 Kari Ellen Gade hefur bent á það í grein sinni, „The Naked and the Dead in Norse Society"
{Scandinavian Studies, 60, 1988, bls. 240), að Sturla Þórðarson sé í raun að óvirða frænda sinn
með því að segja frá klæðleysi hans. En það er í fullu samræmi við afstöðu hans í íslendinga sögu.
Rétt eins og Sturla Þórðarson flettir ofbeldisverkin klæðum hetjuskaparins er tákngervingur
þessa tíma, Sturla Sighvatsson, flettur öllum sínum klæðum.
88 Árni Pálsson benti fyrstur á þetta („Snorri Sturluson og íslendingasaga", Á víSogdreif, Reykjavík,
1947, bls. 110-190). Var hann á þeirri skoðun að þessi kuldi í garð Snorra stafaði frá Þórði,
föður Sturlu, en samband þeirra bræðra var sem kunnugt er afar róstusamt.