Skáldskaparmál - 01.01.1994, Síða 110
Sighvatur Þórðarson og Egils saga
BALDUR HAFSTAÐ
Á sviði norrænna fræða glíma menn stöðugt við að bera saman gamla texta og
reyna þannig að átta sig á samhenginu milli þeirra. Þetta er vandmeðfarið efni.
Oft er um að ræða tvö alls ólík verk þar sem þó birtast hliðstæður í orðalagi eða
efnismeðferð. Sé mikið um slíkt, einkum bein orðalagslíkindi, er ekki ósennilegt
að um beint samband milli texta geti verið að ræða; þannig gæti höfundur annars
textans hafa þekkt hinn. En oft getur verið erfitt að segja með vissu í hvora áttina
áhrifin hafa gengið. Og þegar haft er í huga að þeir textar, sem unnið er við, eru
sjaldnast frumtextar verður alltaf að minnast þess að þeir geta hafa breyst í síðari
uppskriftum og þegið efni sem þar var alls ekki að finna áður. Gott dæmi um hve
mál af þessu tagi geta verið flókin er sambandið milli Heimskringlu og Orkney-
ingasögu. Þar ganga áhrifin á báða bóga: Upphaflega hefur Snorri notfært sér
Orkneyingasögu þegar hann ritaði konungasögur sínar. En í síðari uppskriftum
hefur Orkneyingasaga þegið af Heimskringlu. Á þetta benti Sigurður Nordal
fýrstur manna í doktorsriti sínu um Ólaf helga.
Stundum er þessu öðruvísi farið. Þá getur verið að skýra megi skyldleika
ákveðinna texta með sameiginlegri (glataðri) heimild beggja. Um þetta mætti
eflaust finna mörg dæmi. Hugsanlega er t.d. ekki beint samband milli Gísla sögu
og Droplaugarsona sögu þar sem sagt er frá kúnum sem bundnar voru saman á
hölunum. Slíkt gæti skýrt það ósamræmi sem ríkir í báðum frásögnunum í því
samhengi sem þær birtast í.1
Þriðji möguleikinn til að skýra skyldleika texta er sá að gera ráð fyrir sterkri
munnlegri hefð þar sem föst orðasambönd og efnislíkindi gætu hafa borist milli
manna og skilað sér í ólíkum ritverkum. Svipaðar aðstæður, hugmyndir, minni
og byggingartæknileg atriði birtast oft í ólíkum sögum (eða ljóðum) og gæti slíkt
bent til ákveðinnar frásagnartækni sagnamanna og munnlegrar hefðar.2
Af framansögðu má ráða að mjög varlega verður að fara þegar leitast er við að
skýra skyldleika texta eða ritverka. Hér á eftir verður sýnt dæmi um möguleg áhrif
á Egils sögu, dálítið sérstakrar tegundar. Um er að ræða áhrif ákveðins einstaklings
sem þekktur er úr ýmsum verkum, m.a. Heimskringlu Snorra Sturlusonar. Þetta
er Sighvatur skáld Þórðarson. í Heimskringlu (og Ólafs sögu Snorra hinni
sérstöku, en einnig í Flateyjarbók) fæst nokkuð skýr mynd af þessum Islendingi
sem er í hávegum hafður við erlendar hirðir. Hann er einlægur vinur Ólafs
konungs Haraldssonar og stallari hans, en heimsækir jafnframt Knút ríka, fjand-
mann Ólafs, yrkir um hann lof og þiggur af honum gjafir. Hann setur saman
1 Sbr. Andersson, 1969, bls. 28-39.
2 Almennt um rittengsl í fornsögum, sjájónas Kristjánsson, 1972, bls. 224-225. Sjá einnig Bjarna
Einarsson, 1989, um munnmæli og endursögn eítir skrifuðum sögum, bls. 129-131.
SKÁLDSKAPARMÁL 3 (1994)