Skáldskaparmál - 01.01.1994, Page 160
158
Elín Bára Magnúsdóttir
för sína 22 ára gamall. Jón víkur aldrei að því berum orðum hvers vegna hann
hafi viljað fara utan en segir það snemma hafa verið ásetning sinn. Hann var af
fátæku fólki komin og er líklegt að draumar um utanreisu hafi vaknað snemma
sem leið til að öðlast betra hlutskipti í lífinu.
Tildrögin að ferðinni færir hann hins vegar í táknrænan búning og skrifar fyrsta
kafla sögunnar inn í umgjörð píslarsögunnar. En með því lætur hann að því liggja
að utanreisa sín hafið verið guðleg köllun. Algengt minni í píslarsögum er að lýsa
píslarvottinum sem miklum hrakfallabálki í barnæsku. Merkingarmið slíkra frá-
sagna hlýtur að vera að sýna fram á hina guðlegu vernd sem hann nýtur í æsku en
honum er alltaf bjargað á einhvern yfirnáttúrlegan hátt út úr þeim ógöngum sem
hann ratar í. A eftir slíkum frásögnum fylgir síðan spásögn um að hér sé á ferð
mikill maður sem guð hafi ætlað annað og meira hlutverk en að látast barn að aldri.
í svipuðum anda lýsir Jón barnæsku sinni og fær lesandinn einungis að heyra
af þeim óhöppum sem hann lendir í sem barn og hvernig honum var aftur og
aftur bjargað frá drukknun úr ám og vötnum. Þessir atburðir fá síðan móður hans
og aðra til að draga þá ályktun að Jón muni gerast mikill ferðalangur:
Mín elsku móðir bar stóran kvíða fyrir mjer, við vatnsföllum allra helst, og mælti hún
það og margir, að mjer mundi auðnast yfir vötn að ferðast, en Guð bað hún mig jafnan
annast, hverja hennar jafnlega bæn að Guð miskunnsamur faðir hefur heyrt, og
náðarsamlega bænheyrt.(9)
En þótt Jón reyni í upphafi bókar að samsama sig mynd píslarvottsins ganga þau
líkingavensl heldur illa upp þegar komið er yfir í sjálfsævisöguna. Og er hér e.t.v.
komin sá munur sem greinir sjálfsævisöguna frá píslarsögunni: Söguhetju
sjálfsævisögunnar tekst m.ö.o. ekki að samsama sig þeirri ímynd sem hún gerir
að viðmiði sínu eins og píslarvottinum tekst t.d. í samsömuninni við guð
almáttugan, heldur verður hún að beina þrám sínum í þann farveg sem er
aðgreindur frá því sem í upphafi var stefnt að.
Jón lagði upp í reisu sína sumarið 1615. Hann fékk far með enskum sjómönn-
um til Englands og dvaldist þar fyrst í Harwich og síðan í Lundúnum. Á Englandi
kunni Jón aldrei vel við sig sem má rekja til slæmra kynna hans af enskum í fyrstu.
En þrátt fyrir byrjunarörðugleika ávann hann sér gott álit og buðust mörg góð
atvinnutækifæri. En á Englandi gat Jón ekki hugsað sér að dvelja til langframa og
hafnaði því öllum slíkum boðum enda þá ákveðinn í að fara til Danmerkur. I
Lundúnum fékk Jón síðar far með skipi Kristjáns konungs fjórða og sigldi með
því um haustið til Kaupmannahafnar. Eftir tæplega tveggja mánaða dvöl þar
bauðst honum að ganga til liðs við fallbyssulið konungs. Jón réð sig þar sem
byssuskytta og starfaði fyrst um sinn í týhúsinu. Hann kunni strax mun betur við
sig í Danmörku en á Englandi enda var honum sérstaklega vel tekið í týhúsinu.
Hans Kost arkelímeistari, sem Jón nefnir Meistara Hannes, hafði sérstakt dálæti
á honum og mismunaði Jóni á engan hátt þótt útlendur væri. Það kom Jóni vel
því eins og hann víkur að hefur það verið erfitt fyrir hann útlendinginn að aðlagast
hinu nýja samfélagi: