Skáldskaparmál - 01.01.1994, Page 166
164
Elín Bára Magnúsdóttir
eftir krókaleiðum að Jón verði dæmdur til dauða eða hálshöggvunar. Þegar á
reyndi komst hann þó ekki upp með ætlunarverk sitt því helmingur dómaranna
neitaði að samþykkja og skrifa undir dóminn. Að lokum varð Grabo\v að gangast
við þeirri kröfu þeirra að málið yrði lagt undir kóng. Þau málslok voru Jóni í hag
því kynni hans af Kristjáni fjórða á siglingunni til Flekkerö komu sér nú vel. Þegar
málið berst í hendur konungi tekur hann upp málstað Jóns og er sannfærður um
að prófossinn eigi meiri sök í málinu. Það byggir hann á samtalinu við Jón forðum
því hann áleit hann of greindan til að láta slíkt henda sig og segir: ,,‘því ei vaxa,’
sagði kóngur, ‘höfuð á kálstöngum á meðal vor’“ (156). Eftir að Kristján fjórði
hefur síðan hlýtt á mál Jóns er hann sýknaður af öllum ákæruatriðum. Við það
tækifæri sér kóngur ástæðu til að tala hlýlega um Jón en af máli hans má ráða að
hann hafi grunað að Jón hafi orðið svo harkalega fyrir barðinu á yfirmönnum
sínum vegna þess að hann var íslendingur. Að sama skapi sendir kóngur prófoss-
inum kaldar kveðjur:
„Þessi er einn íslendingur, einn fallegur ungur maður, og hefir verið tvær reisur innan
skipsborða með oss, og þóknaðist oss vel hans umgengni, og eru hjer nú ekki fleiri
undir regimentinu en hann einn. — En sá prófoss skal afsetjast, og bæri að hafa skömm
í þökk.“ — Fyrirbauð honum að bera stjórnarsprotann framar meir. Grabov vogaði
ekki eitt orð að tala. (162)
En þótt Jón slyppi með skrekkinn út úr málaferlunum við Grabow höfðu þau
eigi að síður lærdómsríka þýðingu fyrir hann. Harkaleg framganga Grabows hafði
það í för með sér að Jón gerði sér loks grein fyrir að hann hafði gengið of langt
með framkomu sinni, og þar með vanmetið stöðu sína stórlega, sem átti ekki upp
á pallborðið í valdskiptum heimi danska hersins. Hann öðlast m.ö.o. þekkingu á
því hvað hafi valdið átökunum við Grabow og niðurlægingunni sem hann varð
fyrir í kjölfar þeirra en síðari hluti Reisubókarinnar er til vitnis um að Jón hefur
dregið sinn lærdóm af málaferlunum.
V
Aðdragandi og eftirmáli málaferlanna eru þeir þættir í Reisubók Jóns Indíafara sem
mynda uppistöðuna í sjálfsævisögulegum hluta hennar. Hér hefur þess verið
freistað að skoða þá í samhengi út frá leiðarkerfi frásagnarlíkansins en nánari
greining á atburðafléttunni gæti hljómað eitthvað á þessa leið: Upphafshreyfingin
er knúin fram af þeirri vöntun Jóns að búa við bág kjör og má líta á utanreisuna
sem leið hans til að bæta hag sinn og öðlast betra hlutskipti í lífinu, sbr. vansœla
—> alsala.
Þegar Jón hefur gengið til Iiðs við danska sjóherinn nýtist orðfimin honum vel
í þeim útistöðum sem hann lendir í bæði innan og utan herliðs. Sá hæfileiki leiðir
til ofmetnaðar Jóns (sbr. „of mikil þrá“) sem birtist einkum með þeim hætti að
hann telur sig þess umkominn að koma fram við yfirmenn sína af mikilli dirfsku.