Skáldskaparmál - 01.01.1994, Qupperneq 250
248
Ritdómar
Það er vanþakklátt verk að búa texta til prentunar. Allar góðar lausnir virðast
eftir á því sjálfsagðari sem þær eru betri, en hnökrar verða áberandi, jafnvel
neyðarlegir, þegar lesandi kemur auga á þá. Aðfinnslurnar hér að framan varða
stök atriði sem setja engan meginsvip á textameðferð Grágásarútgáfunnar. Aðal-
einkenni hennar er hentug aðferð sem framfylgt er af mikilli nákvæmni.
í efnisflóði Grágásar geta ákvæði um tiltekið efni reynst torfundin; kannski eru
þau dreifð á marga staði og falin innan um óskylt efni. Rækileg atriðaskrá er því
höfuðnauðsyn til að gera útgáfu sem þessa að hentugu verkfæri. í lögunum er líka
margt torskilið, bæði í efni og máli, sem best skilst af samanburði við önnur
lagaákvæði. Utgefendur hafa valið þá leið að setja ekki millivísanir við textann
sjálfan (eða nánast hvergi, undantekningar t.d. á bls. 15 og 23), heldur láta
atriðisorðaskrána þjóna tilgangi þeirra. Þar er bæði vísað sérstaklega á þá staði,
sem gefa skýringar á hugtökum og fyrirbærum, og vísað mjög ríkulega frá einu
uppflettiorði á annað. Mér virðist atriðaskráin (sem er nafnaskrá um leið) vel gerð
og þjál til leitar. En eðlilega verður hún mjög bundin af orðfæri textans sjálfs og
því stundum snúið að finna ákvæði um hluti sem maður kann ekki að nefna á
nógu klassísku máli. Við finnum t.d. ekki „niðursetning“ eða „sveitarómaga,
sveitarlim", því að sú þjóðfélagsstaða var naumast orðin til. „Fátækraframfæri"
finnst ekki heldur — það er ekki hugtak Grágásar. En undir flettiorðunum
„ómagi“ og „framfærsla" finnur maður allt sem þetta varðar (raunar vantar
millivísun þeirra á milli).
Það er mikil kúnst við val atriðisorða að búa til hæfilega blöndu af orðum víðrar
og þröngrar merkingar, eða yfirhugtökum og undirhugtökum. Grágás nefnir t.d.
dagsetningar oftast með vísun til messudaga dýrlinga; þeir eru í atriðaskránni hver
um sig, en líka taldir upp undir „messudagur" og er það gagnlegt yfirlit. Hér má
finna hið óvenjulega yfirheiti „maður“, og er þaðan vísað á nöfn allra norrænna
manna sem nefndir eru í textanum (sem er ekki svo vitlaust, en ofrausn virðist að
vísa til baka til „maður“ frá hverju einstöku mannsnafni). Hins vegar er ekki að
finna lögfræðileg yfirheiti eins og „löggjöf' eða „refsing" eða „sönnun, sönnun-
argögn“, sýnilega samkvæmt þeirri reglu að setja ekkert í atriðaskrána sem ekki
tilheyrir máli Grágásartextans sjálfs. Orðið „lög“ er hér ekki heldur, hefur vísast
verið talið of víðtækt. Til að finna ákvæði Grágásar um lög í landinu þarf mér að
hugkvæmast lykilorðið „lögmáT (sem ætti kannski ekki að vera torfundið, en það
er þó eitt af 75 atriðisorðum sem byrja á „lög-“ og fylla rúma þrjá smáletursdálka).
„Verðlag“ er ekki heldur uppflettiorð, heldur fornyrðið „lag“ með vísun á „fjárlag“
og „þinglag", en ekki dugir þetta til að finna alla lagastaði sem benda á verð hluta
eða verðhlutföll.
Vísast hefði verið rétt að binda skrána ekki alveg svona stranglega við orðafar
Grágásar sjálfrar, heldur taka með fáein nútímahugtök og vísa frá þeim til
viðeigandi Grágásarorða. Þetta er þó álitamál, og í heild er ég allsáttur við gerð
skrárinnar. Villur hef ég ekki rekist á í henni þrátt fyrir töluverða notkun, nema
ef telja skyldi millivísun frá „lögbók“ í „lögbók"; þar hefur líklega átt að standa
eitthvert annað orð.