Skáldskaparmál - 01.01.1994, Side 251
Ritdómar
249
Þótt Grágás skýri sig að nokkru leyti sjálf, ef lesandinn finnur réttu staðina til
samanburðar, veitir ekki af að skýra út óvenjuleg orð — eða kunnugleg orð í
framandi merkingu. Það er nánast ótrúlegt hvað lagamálið er oft frábrugðið máli
fornsagnanna, að ekki sé talað um nútímamál. Hér veita útgefendur rækilega
þjónustu, því að á orðskýringum er tvöfalt kerfi. Annars vegar eru torskilin orð á
hverri síðu tölumerkt og skýrð neðanmáls, einhver á nánast hverri síðu, oft 5-10
og upp í 20. Hins vegar eru skýringar felldar inn í atriðaskrána, bæði beinar
orðskýringar og aðrar upplýsingar (líkt og Vilhjálmur Finsen gerði í útgáfu sinni).
Þetta er hentugt og fer vel, og skýringarnar eru nokkuð rækilegar. Að vísu duga
þær ekki til að gera textann auðskilinn, enda er þar fleira til trafala en merking
einstakra orða. Utgefendur hafa lítt farið út í að skýra samhengi setningarhluta
eða endursegja hugsun mjög knosaðra textastaða (eins og stundum er gert í
skólaútgáfum; þessu bregður þó fyrir, sjá bls. 436), enda er torséð hvar það tæki
enda ef farið væri að tyggja textann svoleiðis ofan í lesendur.
Nokkrar skýringarmyndir gefa yfirlit um tímatal, upphæð tíundar, nokkur
skyldleikaorð, einingar verðs og vogar, stjórnskipun og niðgjöld. Þær eru vel
gerðar og gagnlegar.
Skýringarnar við Grágás eru mikið vandaverk og ekki furða þó að þar geti sitt
sýnst hverjum um einstök atriði.
Aðeins eina orðskýringu hef ég fundið einfaldlega ranga. Þar segir: „dilkur,
dilksauður ungfé, (oftast) lamb“. Hér er í fyrsta lagi „dilksauður“ allt annað en
dilkur, nefnilega „dilkær, ær með lambi“. Svo vantar aðalatriðið sem gerir dilk að
dilk, nefnilega það að hann gangi undir ánni (sumarlangt, ekki sé fært frá henni).
Og loks er skýringin óljóst orðuð. Að dilkur sé oftast lamb, en geti verið annað
„ungfé“, er nærtækast að skilja svo að hann geti verið eldri en lamb, þ.e. gemlingur
eða veturgamall. En meiningin er sú að hann geti verið grís, kið eða kálfur (sem
gengur undir móðurinni); það mætti til samans kalla ungviði fremur en „ungfé“.
Svo eru margar skýringar sem orka tvímælis. Orðið drepráð er t.d. skýrt sem
„manni ráðið til að slá annan“ og áljótsráð sem „ráð um að valda manni áverka
eða miska“. Þetta verður að skilja sem ráðleggingu, enda er skýringin á hugtakinu
ráð (í þeirri merkingu sem hér á við) „fyrirætlun, ráðagerð um að vega mann
eða...“. En samkvæmt klausunni, sem hér er vitnað til að framan (af bls. 263-4),
hefur ráð víðari merkingu en þetta, nánast „að valda því af ásetningi að maður
vegi annan, slái, veiti áverka o.s.frv.“. Ekki endilega með ráðleggingu, heldur t.d.
fyrirmælum, eggjun, mútum, rógi eða öðru.
Langoftast skýra útgefendur einstök orð, stundum þó orðasambönd. Dæmi á
bls. 217: Velja ber sem „vettvangsbúa" þá sem næst búa vettvangi afbrots, og er
talað um vettvangsbúa „er réttir sé að leiðarlengd“. Skýrt neðanmáls: „leiðarlengd:
vegalengd; rétturað leiðarlengd: í réttri fjarlægð“. En hér er ekki um að ræða neina
tiltekna „rétta“ fjarlægð (frá vettvangi til heimilis búanna), heldur eiga þeir að vera
rétt valdir hvað fjarlægð varðar, þ.e. ekki búa fjær en aðrir. Þetta hafa útgefendur
sjálfsagt skilið rétt en orðað skýringuna fljótfærnislega.
Eða athugum hugtakið hlass. Á bls. 345 kemur fram að leiguliði má við viss