Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2009, Blaðsíða 37
37
LESIÐ Í TERRA NOSTRA
sínu. Með sagnfræðilegu skáldaleyfi hefur Fuentes hnitað kringum pers-
ónu konungsins ýmsum atburðum sem gerðust fyrir tíma hans, til dæmis
byltingartilrauninni í Villalar 1521, sem í raun gerðist samtímis sigri
Cortesar yfir Astekum en hjá Fuentes langt fyrir tíma Filippusar II. Það
breytir þó litlu um merkingu atburðanna. Segja má að Filippus II. hafi
dæmt land sitt til einhæfni eftir að hann hreinsaði það af því sem hann taldi
villutrú, allt frá gnostískum fræðum til hvers kyns mótmælendatrúar, gyð-
ingdóms og íslam. Þennan sigur hinnar hreinu kaþólsku innsiglaði Filippus
II. með því að byggja El Escorial sem varð að grafhýsi trúarstefnu hans og
Spánar í uppþornuðu miðaldamyrkri; samkvæmt Fuentes trénaðist kaþ-
ólskan eftir hreinsanirnar, hún hætti að vera í lifandi samspili við umhverfi
sitt. Þessi arfur færðist síðan yfir á nýlendurnar fyrir vestan haf.
Andstæða Filippusar II. er völvan Celestína og má lesa Terra nostra sem
vígslu inn í leyndardóma hennar, eða eins og Fuentes segir í bók sinni
Cervantes o la crítica de la lectura: „Celestína er á öllum sviðum sú sem
opnar dyr, hún er holdinu hold, hugsuninni hugsun og skynseminni
ímyndun. Hún er því nálæga hið fjarlæga, því vígða hið forboðna.“21 Í
upphafi Terra nostra verður lesandi vitni að stefnumóti Celestínu og
Parísarbúans Póló Föbusar sem hún flytur milli tímaskeiða svo hann megi
sjá hvers vegna draugar fortíðar sækja á staðnaðan nútímann. Hún er einn
mikilvægasti sögumaður bókarinnar, táknmynd villutrúar, leyndardóma
sem liggja utan opinberrar trúar og er stöðugt á flótta undan valdinu.
Samkvæmt Fuentes gat hin ofsótta villutrú af sér fyrirbæri eins og vísindin
og skáldsöguna. Því lætur að líkum að Terra nostra lofi hana í raun. Orðið
villutrú er líka villandi. Fuentes notar hið samevrópska orð „heresía“ sem
á íslensku gæti útlagst sjálfstæðar skoðanir.22 Ekki er að vísu þar með sagt
að öll „heresía“ beri ávöxt.
En nú mætti ætla að þessi áhersla á villutrú á kostnað kórréttrar kristni
hefði vakið einhver andsvör kristinna manna við bókinni. Vart er hægt að
segja að mikið hafi farið fyrir því. Þegar þess er minnst hversu hart var
gengið fram í fordæmingu á bókinni Söngvar Satans eftir Salman Rushdie23
(á níunda áratug síðustu aldar) má varpa fram þeirri spurningu hvort finna
megi í okkar umburðarlynda samfélagi nokkurn vettvang fyrir hugmynda-
lega umræðu og átök. Menn hafast við hver í sínu skoti og gagnvart sér-
hverri ögrandi skoðun skortir okkur áhuga eða við höldum að slíkt skipti
21 Carlos Fuentes, Cervantes o la crítica de la lectura, bls. 51.
22 Sama rit, bls. 20.
23 Salman Rushdie, Söngvar Satans, Reykjavík: Mál og menning, 1989.