Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2009, Blaðsíða 182
RóbERT H. HaRaldSSon
182
Meckl álítur það greinilega vandkvæðalaust að botna málflutning Mills
með þessari niðurstöðu (4) og eyðir þar af leiðandi ekki miklu púðri í
útskýringar.
Vandinn við þessa rökfærslu er hins vegar sá að Mill gerir „besta mögu-
lega samfélagið“ (126) aldrei að neinum mælikvarða til að ákvarða hvar
mörk prentfrelsis liggja og, það sem meira er um vert, hann gæti ekki gert
það. Það er kjarninn í boðskap Frelsisins að grundvallarréttlæting hugs-
unar- og málfrelsis verður ekki sjálf notuð til að skera úr um hvar mörkin liggi
milli þess sem mönnum leyfist og hins sem þeim leyfist ekki að segja eða birta á
prenti. Þetta verður deginum ljósara ef við víkkum sjónarhornið aðeins út
og víkjum fyrst að sjálfu einstaklingsfrelsinu sem er höfuðviðfangsefni
Mills í Frelsinu, og skoðanafrelsi fellur undir. Mill réttlætir einstaklings-
frelsi með vísan til „nytsemi í víðustu merkingu“4: Frelsi einstaklingsins
stuðli að þroska einstaklingseðlisins (e. individuality) í sinni ítrustu mynd
og stendur þannig vörð um varanlega hagsmuni mannsins á þroskabraut
hans. Þetta er grundvallarréttlæting einstaklingsfrelsis. Það væri hins vegar
fráleitt að ætla að nota hana til að ákvarða mörk frelsis og félagslegs
aðhalds, og Mill gerir það ekki. Raunar hefur hann ekki fyrr orðað hina
varanlegu þroskahagsmuni mannsins en hann segir: „Að minni hyggju
heimila þessir hagsmunir enga skerðingu á frelsi einstaklingsins til athafna,
nema þær athafnir varði hagsmuni annarra.“5
Nú vita sennilega flestir lesendur Mills að hann notar ekki hið „besta
mögulega“ samfélag sem mælikvarða á mörk frelsis. Í því samhengi vísar
hann ávallt á skaða sem einstaklingurinn veldur öðrum. Meckl vill hins
vegar tengja þetta tvennt saman með eftirfarandi hætti:
Þannig verður besta mögulega samfélagið að mælikvarða fyrir
Mill til þess að ákvarða hvar mörk prentfrelsisins liggja. Og þess
vegna krefst hann þess að skoðanafrelsinu verði settar hömlur
þegar það tekur að valda samfélaginu skaða. (126, leturbreyting
mín)
Þessu til staðfestingar vitnar Meckl til þeirra ummæla Mills, við upphaf
þriðja kafla Frelsisins, að skoðanafrelsi réttlæti ekki ódæðis- eða skaðræðis-
verk (126–127, nmgr. 14). En tvennt er athugavert við þennan lestur
4 John Stuart Mill, Frelsið, bls. 47.
5 John Stuart Mill, Frelsið, bls. 47.