Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2009, Page 176
176
auðuR InGvaRSdóTTIR
gat fólk undrað sig yfir þessum náttúrufyrirbrigðum, ærin bar kannski í
janúar og þar af leiðandi hafði æxlun átt sér stað um sumarið á fjalli og
hulduhrútur líklegasti orsakavaldurinn. Sama máli gegndi um það þegar
ærin kom heim með nýborið lamb að hausti, þá gat það verið dæmi um
undarlegan burðartíma. Ærin gekk hvorki með lambið í tilsettan tíma né
var það borið á eðlilegum tíma. Þá er einnig skiljanlegt að orðið væri jafn-
framt notað yfir ómarkað fé því að auðvitað hafa lömb borin á fjalli ekki
verið mörkuð og menn því talið þau af yfirnáttúrulegu kyni. Það kemur
líka skýrt fram í lagagreininni í Grágás að óborið fé hlýtur að hafa þýtt eitt-
hvað annað en ómerkt fé því bannað var að eiga „óborið fé“ og jafnframt
að láta það „ómerkt ganga“.72 Væntanlega hefði verið óþarfi að tvítaka það
í lagatextanum að um ómerkt fé væri að ræða og einfaldlega hefði nægt að
segja að bannað væri að eiga ómarkað fé og hafa á því trú. Einhver skilj-
anleg skýring hlýtur að hafa verið á trú manna á slíkar skepnur. Samlag við
vætti hefur þótt sérstaklega heillavænlegt í heiðnum sið og mikil gæfa að
eiga fé af slíkum stofni. Minna má á frásögn í Landnámabók þar sem segir
af hafri sem kom til geita Hafur-Bjarnar, greinilega sendur af bergbúa:
Bj†rn hafði nær ekki kvikfé; hann dreymði, at bergbúi kæmi at
honum ok byði at gera félag við hann, en hann játti. Þá kom hafr
til geita hans litlu síðar; því var hann Hafr-Bj†rn kallaðr. Hann
gerðisk bæði ríkr ok stórauðigr.73
Í Sturlubók segir: „tímgaðisk þá svá skjótt fé hans, at hann varð skjótt vell-
auðigr; síðan var hann Hafr-Bj†rn kallaðr.“74 Hafurinn er greinilega af
yfirnáttúrulegum stofni og varð bóndanum til mikillar hagsældar. Þess
háttar trú hefur væntanlega þótt fremur ill afspurnar meðal kristinna og
þótt ástæða til þess að leggja blátt bann við henni. Sögur um hulduhrúta
og kostamikið annarsheimsfé lifðu þrátt fyrir það lengi með þjóðinni.
Óborið fé hefur því samskonar uppruna og óborna barnið, þ.e. fé sem
hefur fæðst fyrir tilsetta tíð, eftir óeðlilega stutta meðgöngu. Hér blandast
þó hugmyndir manna um yfirskilvitlega æxlun inn í og þannig gat ómark-
að fé fengið þessa merkingu, því fé sem kom ómarkað af fjalli hafði hugs-
anlega orðið til vegna afskipta náttúruvættanna.
72 Grágás, bls. 19.
73 Landnáma, bls. 331.
74 Landnáma, bls. 330.