Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2009, Blaðsíða 61
„ÞIÐ HLUSTIÐ ALDREI Á OKKUR“
61
Hugmyndir Gloriu Anzaldúa hafa haft afgerandi áhrif á kenningar um
landamærin í Bandaríkjunum og verið fyrirmynd yngri kynslóða Chicanóa
sem og bandarísku akademíunnar. Orðræðan um borderlands fer stigvax-
andi í Bandaríkjunum og undanfarin ár hafa margir háskólamenn og lista-
menn tekið upp þennan þráð.49 Svo táknrænn lestur á landamærunum
kemur spánskt fyrir sjónir þeirra rithöfunda sem búa sunnan markanna.
Það þykir harla erfitt að sjá landamærin í táknrænum skilningi þegar búið
er við þau og bókstaflega staðið frammi fyrir áhrifum þeirra á hverjum
degi. Socorro Tabuenca Córdoba hefur bent á að ofannefndar hugmyndir
og útfærslur á hugtakinu landamæri hafi beinlínis þaggað niður í röddum
þeirra höfunda sunnan markanna sem leitast við að vekja máls á veruleika
landamæranna í skrifum sínum. Þetta kallar hún „hugmyndalega nýlendu-
stefnu“.50 Það má segja að borderlands verði að póstmódernísku hugtaki
sem nær yfir nánast hvað sem er og verður á undarlegan hátt að nýjum
aðskilnaðarmúr.
* * *
Af framansögðu má skilja að litið hefur verið framhjá raunveruleika landa-
mæranna bæði í Mexíkó og í Bandaríkjunum. En eins og Félix Humberto
Berumen hefur bent á eru „landamærin í tvístefnu: þau eru brú sem liggur
til tveggja átta“.51 Mörkin fela í sér tvær hliðar. Það er ekki fyrr en báðar
hliðarnar eru teknar með í reikninginn að „samræður sambandsleysis“
verða að raunverulegum samræðum, hvort sem nágranninn í norðri eða í
suðri á í hlut.
49 Þar er t.d. átt við: Emily Hicks, Border Writing: The Multidimensional Text, Minnea-
polis: University of Minnesota Press, 1991; Harry Polkinghorn, „Alambrada.
Hacia una teoría de la escritura fronteriza“, í Harry Polkinghorn, Gabriel Trujillo
Muñoz og Rogelio Reyes (ritstj.), La línea: Ensayos sobre literatura fronteriza
México-norteamericana, Mexicali/San Diego: Universidad Autónoma de Baja
California/University of California San Diego, 1988 og José David Saldívar,
Border Matters: Remapping American Cultural Studies, Berkeley/Los Angeles/
London: University of California Press, 1997.
50 Socorro Tabuenca Córdoba, „Las literaturas de las fronteras“, í José Manuel
Valenzuela Arce (ritstj.), Por las fronteras del norte. Una aproximación cultural a la
frontera México-Estados Unidos, México, D.F.: Fondo de Cultura Económica, 2003,
bls. 399.
51 Félix Humberto Berumen, La frontera en el centro. Ensayos sobre literatura, Mexicali:
Universidad Autónoma de Baja California, 2004, bls. 163.