Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2009, Blaðsíða 105
105
HUGO CHÁVEZ – HINN STERKI MAÐUR
byggðaröskun. Þessu til viðbótar hefur stór hluti af olíutekjum Venesúela
verið nýttur til að flytja inn matvæli í stað þess að framleiða þau heima
fyrir, og myndi efling landbúnaðarins einnig vinna gegn þessu vandamáli.
Ljóst er að miklar breytingar eru nauðsynlegar til að svo megi verða enda
er innflutningur á matvælum um helmingur alls innflutnings til landsins.24
Telur Chávez þessi vandamál tilkomin vegna þeirra stjórnarhátta sem ríktu
á tímum tveggja flokka kerfisins líkt og flest annað sem aflaga hefur farið í
Venesúela.
Til að útskýra fólksflótta úr sveitum Venesúela til borganna nægir ekki
að horfa til fátæktar bænda eingöngu, heldur þarf að skoða aðrar og dýpri
orsakir. Stórjarðir, latifundio, er eitt þeirra meina sem hafa hamlað þróun í
löndum Rómönsku Ameríku. El latifundio er stórjörð sem varð til eftir
sjálfstæði landanna frá Spánarveldi í upphafi 19. aldar og er nátengt cau-
dillo, „sterka manninum“. Slíkt eignarhald á jarðnæði var bæði efnahags-
legur grunnur caudillo og félagslegt tákn um stöðu hans. Af þessum sökum
var það þeim mikið kappsmál að leggja undir sig bestu landbúnaðarhér-
uðin og fyrir vikið var lítið eftir af góðum landsvæðum fyrir smábændurna.
Stórjarðaskipulagið hefur verið lífseigt allt fram á okkar daga og er afleið-
ing þessa skipulags sú að stór landsvæði eru í órækt í dag.
Byltingarmenn í Rómönsku Ameríku hafa alla tíð viljað brjóta upp
stórlandareignina og úthluta henni til smábænda sem gætu þá hafið þar
rækt. Mislangt hefur verið gengið í þessum efnum, minna róttækir leið-
togar hafa beitt sér fyrir því að tekið verði eignarnám í þeim hluta latifundio
sem er í órækt á meðan róttækustu leiðtogar vilja að gengið sé alla leið í
þessum efnum líkt og Castro hefur gert. Sjálfur hefur Chávez kallað lati-
fundio einn helsta óvin Venesúela, en hefur engu að síður kosið að beita sér
einungis fyrir eignarupptöku á svæðum sem eru í órækt.25
Á sviði velferða- og menntamála hefur Chávez náð mestum árangri
fram að þessu. Baráttan gegn fátækt og ólæsi hefur borið árangur eftir
samninga milli Venesúela og Kúbu. Í samningum þessum fá Kúbumenn
ódýra olíu í skiptum fyrir lán á menntuðum einstaklingum eins og lækn-
um, hjúkrunarfólki og kennurum. Þetta menntaða fólk ferðast vítt og
breytt um Venesúela og hafa verið settar á laggirnar ýmiss konar mið-
stöðvar (sp. misiones), bæði úti á landsbyggðinni og í stórborgunum þar
sem fátækir íbúar geta fengið ókeypis læknaþjónustu og kennslu.26 Þrátt
24 Richard Gott, In the Shadow of the Liberator, bls. 9–11.
25 Benjamin Keen og Keith Haynes, A History of Latin America, bls. 504–505.
26 H. Micheal Tarver og Julia C. Frederick, The History of Venezuela, bls. 156.