Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2009, Blaðsíða 180
RóbERT H. HaRaldSSon
180
tilgangi í sjálfum sér“ (124−125). Þeir sem réttlætt hafi Múhameðs-
teikningarnar sitji uppi með innantóman frasa, „prentfrelsi prenfrelsisins
vegna“, sem hafi ekkert með evrópska upplýsingarhefð að gera. Meckl
telur nærtækara að skoða teikningarnar „sem skólabókardæmi um skop-
teikningar á stríðstímum“ (132) sem þjóni því hlutverki „að telja [dönsku]
þjóðinni trú um að hún berjist fyrir réttan málstað og að draga upp dökka
mynd af andstæðingnum“ (132). Þessi málflutningur Meckls er ekki bara
kjörið tilefni til að reyna að sjá til botns í hinni tilfinningaþrungnu deilu
um dönsku teikningarnar heldur líka til glöggvunar á klassískum rökum
fyrir skoðanafrelsi.
II
Víkjum fyrst að verjendum dönsku teikninganna. „Þegar menn réttlæta
prentun skopteikninganna af Múhameð“, skrifar Meckl, „nefna þeir oft
prentfrelsið sem gildi í sjálfu sér“ (131). Skylt orðalag er notað víða í
greininni. Þannig segir Meckl beint eða óbeint að prentfrelsið sé „mark-
mið í sjálfu sér“ (125), „tilgang[ur] í sjálfum sér“ (125), „gildir [...] sjálfs sín
vegna“ (126), „hafi sitt eigið gildi“ (125) og feli í sér „kröfu um takmarka-
laust frelsi“ (127) hjá verjendum dönsku teikninganna. En það er ekki
hlaupið að því að meta gagnrýni Meckls vegna þess að hann segir lesend-
um sínum nánast ekkert um hverjir þessir „menn“ eru. Hvaða verjendur
teikninganna telja að prentfrelsi hafi gildi í sjálfu sér? Hverjir þeirra telja
að prentfrelsi sé takmarkalaust? Snemma í greininni er Flemming Rose,
menningarritstjóri Jyllands-Posten, nefndur til sögunnar en Meckl virðist
þó einungis eigna Rose berum orðum þá skoðun að birting teikninganna
snúist um að standa vörð um vestræn gildi, einkum prentfrelsi, og vinna
gegn sjálfsritskoðun. Því er ekki auðvelt að ráða af sjálfri grein Meckls
hvort Rose myndi yfirhöfuð samþykkja slagorðið „prentfrelsi prentfrelsis-
ins vegna“. Eini nafngreindi höfundurinn sem Meckl virðist beinlínis eigna
þá skoðun að prentfrelsi hafi gildi í sjálfu sér er Ralf Dahrendorf, en til-
vitnanirnar sem Meckl hefur eftir honum sýna einungis að Dahrendorf
telur lögmál frelsisins afar víðtækt en þó ekki nauðsynlega algert (sjá bls.
131). Þetta er bagalegur framsetningarmáti því lesandinn er skilinn eftir
með þann óljósa og órökstudda grun að verjendur teikninganna, hverjir
svo sem þeir eru, hafi engin haldbær rök máli sínu til stuðnings; þeir noti
bara nærtæka klisju sem yfirvarp. Og það sem verra er, lesandi Meckls fær