Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2009, Blaðsíða 112
112
PETER HallwaRd
gerða af ótta við viðbrögð svartra borgara landsins á kosningaári.2 Tilboð
franska utanríkisráðuneytisins um diplómatíska vernd fól í sér trygg ingu um
að íhlutunin gæti farið vel fram en einnig að brotthvarf herliðsins yrði
sársaukalaust úr því að friðargæslusveitir SÞ tækju á sig byrðina þremur
mánuðum síðar.3 Þannig mátti líka ganga inn í hlutverk bresku ríkisstjórn-
arinnar sem helsta slagsmálahundsins. Chirac og Villepin áttu vísan stuðn-
ing nær allra franskra fjölmiðla við hernaðaríhlutun í Haítí, allt frá Le
Figaro til Le Monde og L’Humanité. Í æsingaliðinu fór dagblaðið Libération
einna fremst í flokki og hélt því fram að Aristide forseti – „uppgjafaprestur
sem gerðist harðstjóri og milljónamæringur“, „Bubbi kóngur Karíbahafsins“
– væri persónulega ábyrgur fyrir þeirri „hættu á mannskæðum hörmung-
um“ sem vísað var til sem réttlætingu fyrir innrásinni.4
Þann 25. febrúar krafðist Villepin þess formlega að Aristide segði af sér.
Tveimur dögum síðar tilkynntu Frakkland, Bandaríkin og Kanada að
löndin hefðu sent herlið til Port-au-Prince. Í bítið sunnudaginn 29. febrú-
ar var forseti Haítí leiddur upp í flugvél undir gapandi byssukjöftum og
sendur úr landi. Síðar sama dag breytti Öryggisráðið út af þeirri venju
sinni að gefa sólarhring til samráðs áður en gengið er til atkvæða og af-
greiddi með hraði neyðartillögu sem veitti sveitum úr hópi bandarískra
landgönguliða, frönsku útlendingaherdeildarinnar og kanadískra herdeilda
– sem þá þegar voru í grennd við höfuðborg Haítí – umboð til að gegna
forystuhlutverki í fjölþjóðlegri sveit á vegum SÞ. Andspænis alþjóðlegum
stuðningi af þessum toga létu samtök svartra þingmanna í Bandaríkjunum
sér nægja að hafa uppi væg andmæli. Libération hlakkaði yfir „því brjóst-
umkennanlega karnivali sem Aristide drottnaði yfir“. Að mati New York
Times var innrásin prýðisdæmi um það hvernig bandalög ríkja geta „fundið
sér sameiginlegan grundvöll og fært sér styrkleika sína í nyt“. Þá var ekki
annað eftir fyrir Bush en að hringja í Chirac, þakka honum fyrir og láta í
ljós óblandna ánægju með „hið frábæra samstarf Frakka og Bandaríkja-
manna“.5
Fjölmiðlar á Vesturlöndum höfðu búið í haginn fyrir þessa „mannúð-
legu íhlutun“ með aðstoð fyrirframgerðra handrita sem nú eru orðin
2 Régis Debray, Rapport du comité indépendant de réflexion et de propositions sur les
relations franco-haïtiennes, janúar 2004, bls. 5, 53.
3 Öryggisráð SÞ, Report of the Secretary-General on Haiti, 16. apríl 2004.
4 Sjá Patrick Sabatier, Libération, 31. desember 2003 og 24. febrúar 2004.
5 Financial Times, 2. mars 2004; International Herald Tribune, 4. mars 2004; Sabatier,
Libération, 1. mars 2004; Elaine Sciolino, New York Times, 3. mars 2004.