Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2009, Blaðsíða 106
106
STEfÁn ÁSGEIR GuðmundSSon
fyrir að samningar á borð við þessa hafi skilað jafn góðum árangri og raun
ber vitni, hafa menn þungar áhyggjur af framhaldinu því lækkandi heims-
markaðsverð á olíu gæti hægt á þessari jákvæðu þróun. Auk þess er það
alþýðan, og oft fátækasta fólkið, sem er stærsti stuðningshópur Chávez og
óvíst er hvort fylgi hans héldist óbreytt ef sú þjónusta sem fátæklingar fá
nú verður ekki áfram í boði. Olían er því sá kraftur sem heldur byltingunni
gangandi en kann að sama skapi að verða það afl sem stöðvar hana.
Utanríkisstefna Venesúela er án vafa sá málaflokkur sem fengið hefur
hvað mesta umfjöllun í fjölmiðlum. Líkt og áður sagði hafa neikvæð við-
horf Chávez gagnvart Bandaríkjunum ratað margsinnis í fjölmiðla líkt og
hlýjar lofræður tileinkaðar Fidel Castro. Minna hefur farið fyrir umfjöllun
um tilraunir Chávez til að leita sér nýrra vina og styrkja stöðu sína á
alþjóðavettvangi. Það kemur ef til vill ekki á óvart að þjóðirnar sem Chávez
hefur leitað til eru einkum þær sem Bandaríkin eiga í nöp við og nægir þar
að nefna Líbýu, Íran og Rússland. Hafa til að mynda farið fram töluverð
vopnaviðskipti milli Rússlands og Venesúela. Auk þess hefur Chávez styrkt
tengsl sín við Kína og aukið olíuútflutning þangað umtalsvert. Hann hefur
þó aldrei gleymt nágrönnum sínum í Rómönsku Ameríku og hefur leitast
við að vingast við aðrar þjóðir á svæðinu. Um þessar mundir er hann eins-
konar leiðtogi róttækra vinstristjórna þar og lönd á borð við Bólivíu,
Ekvador og Níkaragva fylgja honum jafnan að málum. Hófsamari vinstri-
stjórnir í Brasilíu, Argentínu og Chile eru ekki alltaf sammála Chávez í
stefnumálum hans en vinna engu að síður með honum að ýmsum málefn-
um.
Lokaorð
Á undanförnum árum hefur samfélagið í Venesúela tekið á sig mynd
tveggja andstæðra fylkinga – þeir sem eru hliðhollir forsetanum og þeir
sem teljast andstæðingar hans. Flestir hinna hliðhollu tilheyra alþýðunni í
landinu, meirihluta þjóðarinnar, sem hafði úr litlu að moða fyrir árið 1998
og hafði misst trúna á tveggja flokka kerfi kalda stríðsins. Þessi hópur öðl-
aðist rödd og sjálfsvirðingu, ef svo mætti að orði komast, þegar Chávez
settist í forsetastólinn. Alþýðan er því bakland Chávez og sá hópur sem fer
út á götu og styður sinn sterka mann þegar þörf er á. Andstæðingar forset-
ans koma hins vegar flestir úr gömlu yfirstéttinni, en þeir berjast við að
halda sem flestu óbreyttu til að verja hagsmuni sína. Í þessum hópi má
finna landeigendur, viðskiptajöfra og kirkjunnar menn, sem allir tengdust