Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2009, Blaðsíða 171
MARGKUNNUGAR KONUR OG ÓBORIN BÖRN
171
mönnum þýddar á íslensku snemma á öldum. Sú þekking sem þær geymdu
hefur því væntanlega verið mönnum töm. Óburðir hafa öðru hverju fæðst
og þurft sérstakrar umönnunar við og það hefur áreiðanlega þótt ganga
stórmerkjum næst að halda lífi í slíkum krílum. Frá 19. öld er frásögn Árna
Þórarinssonar um hinn snemmborna Ámunda og þar segir af alþýðlegri
umönnun fyrirburans: „var vafinn í flóka og heitar flöskur alltaf hafðar við
flókann og þess vandlega gætt að aldrei legði kulda að honum.“50 Það var
yfirsetukonan Katrín Eiríksdóttir sem fædd var 1792 sem sinnti fyrirbur-
anum svona alúðlega og hélt í honum lífinu.51 Hvort sem ambáttin
Myrgjól hefur vafið barn drottningar í ull eða baðað það upp úr jurtaseyði
hefur henni tekist að lengja líf þess. Kona sem var fær um slíkt á landnáms-
öld hefur tvímælalaust þótt margkunnandi og fróð.
Misborið – óborið
Til þess að skýra betur kunnáttu ambáttarinnar víkur sögunni nú til
Bretlandseyja. Á Englandi eru til fjölmörg lækningarit frá fornum tíma,
bæði á latínu og fornensku. Beda prestur sem Ari fróði vitnar t.d. til í
Íslendinga bók sinni skrifaði um lækningar snemma á 8. öld og í íslenskum
lækningaritum er sömuleiðis vitnað til Beda.52 Tengsl íslenskra manna við
engilsaxneska lærdómsmenn frá fyrsta skeiði ritaldar eru því alkunn.
Engilsaxar virðast snemma hafa skrifað læknatexta jafnt á eigin máli sem
latínu. Á Írlandi voru líka víðfræg menntasetur á fornum grunni og tengsl
við fornenskar læknabækur kunn. Skiluðu þessi vísindi sér til Íslands með
landnámsmönnum sem komu vestan um haf? Það má láta sér detta í hug
að þær vestanhafskonur Myrgjól hin margkunnandi og Grélöð,53 sem fann
ilm af grösum, hafi búið yfir einhverri slíkri þekkingu.
Mikilvægt verk, sem er til í fjölda handrita, er fornensk þýðing á lat-
ínuritinu Herbarium, kenndu við Apulei, sem að líkindum hefur verið þýtt
50 Þórbergur Þórðarson, Ævisaga Árna prófasts Þórarinssonar, bls. 66.
51 Um Katrínu segir í Ljósmæðratali: „Katrín Eiríksd. nam ekki ljósmfr. svo vitað sé,
nefnd yfirsetukona í aðalmannt. 1840. Gegndi mjög ljósmst. í nágrenni sínu, eink-
um 1820–1855, missti sjónina um það leyti, ljósm. víst 50 barna eftir það.“ Ljós-
mæður á Íslandi I, bls. 372.
52 Den islandske lægebog. Codex Arnamagnæamus 434 a, 12mo, útg. Kr. Kålund, Kaup-
mannahöfn: Kongelige Danske Videnskabernes Selskab, 1907, bls. 12. Sjá enn-
fremur Jón Steffensen, „Alþýðulækningar“, Alþýðuvísindi. Íslensk þjóðmenning IV,
Reykjavík: Þjóðsaga, 1990, bls. 105–192, hér bls. 167–168.
53 Myrgjól var írsk konungsdóttir eins og fyrr segir. Grélöð var jarlsdóttir af Írlandi.