Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2009, Page 67
UNDIR BRÚNNI
67
komin á bakkann en óttinn greip mig. Ég sá Martín á milli vagnanna rífast
við sama vörðinn. Mér fannst eins og hann væri að seilast eftir hnífnum
sem hann var alltaf með í stuttbuxnavasanum. En eftir fáeinar mínútur var
sá græni horfinn. Martín var ekki lengi að koma sér yfir til okkar.
– Komum okkur héðan, skipaði hann þegar hann kom til mín, það er
ekki að vita hverju ég gæti tekið upp á núna.
Við gengum yfir á veitingastaðinn hans Mere og fengum okkur kók.
Martín varð aftur rólegur. Ég notaði tækifærið og sagði honum að ég væri
hætt við. Honum leist ekki á það, við færum víst yfir. Honum fannst þetta
ögrandi og sagði að sá græni væri hræddur við sig af því að hann hefði
hótað honum og ætlaði að koma upp um hann. Þar að auki væri hann ekki
lengur á vakt. Hann var viss um að hann væri farinn núna. Þetta var ekki
mjög sannfærandi og ég sá eftir að hafa farið niður á bakka til hans. Mig
langaði helst að láta mig hverfa. Martín reiddist og dró mig með sér að
bakkanum. Hann dröslaði mér upp á uppblásna slönguna sem hann notaði
til að ferja yfir.
– Vertu alveg róleg, þetta tekur ekki nema nokkrar mínútur!
Hann dró slönguna varlega til að vatnið skvettist ekki á mig. Þetta var
um þrjúleytið og sólin var enn hátt á lofti. Hún speglaðist í gruggugu vatn-
inu. Undir brúnni voru konur og karlar, þau biðu í röð eftir að komast yfir.
Uppi á brúnni stóð fólk með fingurna krækta í vírgirðinguna og horfði.
Það horfði á okkur Martín. Þrátt fyrir hræðsluna fann ég hvernig ég gladd-
ist við tilhugsunina um að við ættum eftir að ganga um götur borgarinnar
sem ég þekkti ekki og eyða síðdeginu þar. Ég fylltist eftirvæntingu. Ég leit
upp í bláan himininn, á Franklínfjallið, á litskrúðugar byggingarnar og á
risastóra auglýsinguna með Camelsígarettunum og aðeins neðar á lestar-
vagnana. Í sömu andrá heyrði ég skothvell. Við vorum komin að bakkanum
hinum megin. Þá sá ég mann sem virtist vera í felum milli vagnanna í
græna auðþekkjanlega einkennisbúningnum.
– Hvað er að gerast, Martín? spurði ég óttaslegin.
– Beygðu þig! öskraði hann um leið og hann skýldi sér bak við slöng-
una. Þá heyrði ég annan skothvell. Martín féll saman og hvarf í gruggugt
vatnið. Ég öskraði skelfingu lostin og ætlaði að fara ofan af slöngunni en
gat það ekki vegna hræðslu. Ég hallaði mér aftur á bak og skimaði í allar
áttir eftir hjálp. Það var ekki nokkurn mann að sjá undir brúnni, ekki ofan
á henni, ekki nokkurs staðar. Allt varð þokukennt og fjarlægt: krakkarnir
sem léku sér á rykugum götunum; heimilið mitt, veitingastaðurinn hans