Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2009, Blaðsíða 162
162
auðuR InGvaRSdóTTIR
ið fé sem samkvæmt kristnirétti var forboðið að trúa á. Ýmislegt bendir til
þess að orðin hafi skylda merkingu og hið óborna fé og hið óborna barn
séu alin fyrir réttan og skikkanlegan tíma.
„Að leysa kind frá konu“
Konur og karlar sem voru fróð eða fjölkunnug og stunduðu lækningar og
fæðingarhjálp fengu jafnan á sig galdraorð. Í fornum ritum er talað um
margvísar konur og margkunnandi, fjölkunnugar og fróðar og þar er oft
verið að vísa til yfirnáttúrulegrar þekkingar, sem var eftirsóknarverð eða
háskaleg. Bjargrúnir þurfti að kunna til að „leysa kind frá konum“ segir í
fornu kvæði og yfirsetukonan Oddný gól ramma og bitra galdra til þess að
hjálpa konu í barnsnauð.1 Lærð kunnátta ættuð frá grískum lærdóms-
mönnum barst á miðöldum um Evrópu, og er líklegt að áhrifa frá slíkum
fróðleik hafi snemma gætt hér á landi jafnvel þótt ekki sé varðveitt eldra
lækningahandrit en frá 13. öld. Latínufróðir menn og sigldir hafa auðveld-
lega getað aflað sér slíkrar kunnáttu snemma á ritöld og fræðin einnig
getað borist með landnámsmönnum frá Bretlandseyjum. Sóst hefur verið
eftir þekkingu sem gat létt fólki lífið og víða er það svo að læknisfróðleikur
var með því fyrsta sem skrifað var niður þegar tækni hins ritaða máls varð
mönnum töm.
„Hon varðveitti barn drottningar óborit“
Hér á eftir mun ég beina sjónum sérstaklega að margkunnandi ambátt sem
nefnd er í Landnámu og leiða líkur að því að hún hafi einmitt verið kunnug
fornum læknisfróðleik. Í einni frásögn Landnámu segir af landnemum sem
komu vestan um haf og þar er að finna áhugaverðan fróðleik um írsku
ambáttina Myrgjól, sem hafði verið í tygjum við skoskan jarl, en var tekin
herfangi af Sigurði jarli. Síðan segir af margkunnáttu hennar og þjónustu
við drottningu:
Myrgjol var ambátt konu jarls ok þjónaði henni trúliga; hon var
margkunnandi. Hon varðveitti barn drottningar óborit meðan
hon var í laugu.2
1 Eddukvæði, Ólafur Briem annaðist útgáfu, Reykjavík: Skálholt, 1968, bls. 344,
414.
2 Landnámabók. Íslenzk fornrit I, Jakob Benediktsson gaf út, Reykjavík: Hið íslenzka
fornritafélag, 1968, bls. 138. Greinarhöfundur skáletrar.