Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1982, Page 52
48
MÚLAÞING
henni var eldaður matur til daglegra þarfa. Var eldavélin með þremur
eldhólfum og bakaraofni, einnig bakpotti (vatnskassa), sem jafnan var í
heitt vatn. Blikkplata, allbreið, var á gólfi fyrir framan eldavél til að
varna eldhættu. Hinum megin (sunnan) við eldavélina við austurstafn
var rúmgott „skot“, og var þar hafður eldiviður, tað og mór, í kassa.
Lítil „saltkista“ með loki á var fest ofarlega á stafninn, yfir bakpottin-
um og eldiviðarskotinu.
Við suðurhlið búrsins var skilvinda á bekk. Var hún með merkinu
Alfa-Laval og kom árið 1896. Utan um hana var hafður nokkuð hár
kassi, „skilvindukassinn“, þegar hún var ekki í notkun. Búrbekkurinn,
með lokuðum skápum undir, var innar (vestar) við suðurhlið, og náði
hann að vesturstafni. Diskarekki (diskagrind) var á vegg yfir búrbekk,
og innar stór, lokaður skápur fyrir leirtau o. fl. Hann náði að vestur-
stafni. Bekkur var einnig við vesturstafn, en engir skápar. Setubekkur
var við norðurhlið.
Stafn á búrrisi var úr timbri, sem áður getur. Allstór, sex rúðna
gluggi var á honum, og sneri í vestur. Var því vel bjart í búrinu.
Undir búrinu var kjallari, sem matur var geymdur í. Veggir hans voru
hlaðnir úr grjóti. Stigi lá ofan í kjallarann úr norðvesturhorni búrsins,
og var viðamikill hleri á hjörum yfir stigagatinu. Lítill, tveggja rúðna
gluggi var vestan á kjallaranum, alveg niðri við jörð að utan, en glugga-
skoti hallaði mikið frá honum niður í kjallarann. Þessi gluggi átti sér
sína sérstöku sögu. Það var hann, sem Móskjóna braut og skar sig þá á
glerinu og sagt er frá í ljóðabrefi Páls skálds Ólafssonar til Jóns Sig-
urðssonar á Ketilsstöðum (sbr. Ljóðmæli eftir Pál Ólafsson, II. bindi,
bls. 173, Reykjavík 1900, útg. Jón Ólafsson). Var ljóðabréf þetta stund-
um kallað Móskjónuvísur.
I kjallaranum voru tvö keröld (sáir) og nokkrar tunnur, sem skyr,
slátur og annað súrmeti var geymt í, og einnig saltkjöt. Hillur voru við
austur- og suðurvegg yfir tunnum. Þar voru ostar geymdir, berjasaft,
smjör o. fl.
A vorin var allur matur tekinn úr kjallaranum og farið með tunnur og
minni ílát, skyrbyður, trog, ostadalla, bakka o. fl., út að Bæjarlæk, þar
sem þau voru þvegin og soðin og sett til þerris á eftir. A meðan var
eldur kveiktur á miðju kjallaragólfi, aðallega í lyngi, og þannig til hag-
að, að lítið logaði. Kom þá reykur mikill og svæla, sem áttu að tortíma
öllum smákvikindum, er þar kynnu að leynast. Var þetta þeirra tíma
sótthreinsun. Að þessu loknu var allri svælu hleypt út, loft og veggir
sópaðir með hrísvendi og kjallarinn allur hreinsaður sem hægt var. Síð-