Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1982, Síða 58
54
MÚLAÞING
Nokkru norðan við Móhúsið stóð lítill kindakofi í túnjaðri, kallaður
Hrútakofi. Dyr sneru í austur, og var heyjata við norðurhlið. Þar voru
hrútar hafðir á vetrum.
Handan við Bæjarlækinn, suður af túninu, tók við mýri, nema suður
af sjálfum bænum. Þar skar lækurinn túnið sundur, og var sunnan hans
túnblettur, sem hét Sauðhústún. Á þessum túnbletti var ávalur hóll, og
á honum stóð fjárhús, sem hét Sauðhús og sneri frá vestri til austurs.
Dyr þess sneru í austur, en vestan við það var Sauðhúshlaðan. Hún var
hringmynduð og þakið einnig. Var það bratt og mænir þess topplagaður.
Árið 1914 var garðinn í Sauðhúsinu steinsteyptur, og fremst (austast)
í garðahöfði var steypt niðurgrafin baðþró, með tröppum efst upp í
garðann. Þar var féð baðað fyrri hluta vetrar, skömmu fyrir jól. Eftir
baðið í þrónni fóru kindurnar upp í garðann, sem hallaði htið eitt að
þrónni, og þar seig baðlögurinn úr þeim og rann niður í þróna. Auk
heimafjár var um áraskeið baðað þarna fé af næstu bæjum. Það þótti
betra en að baða í trékörum, sem notuð voru áður.
Milli lækjar og Sauðhúss sást móta fyrir gömlum tóftum, sem síðar
voru sléttaðar.
Norðaustur af bænum var hesthús, upphaflega byggt utan túns, er
tók fimm hesta. Voru dyr á austurhlið, en heystallur við vesturhlið.
Sunnan við það var hlaða, og voru dyr úr henni fram í hesthússtallinn.
Lítill hesthúskofi fyrir einn hest var byggður skammt sunnan við hest-
húshlöðuna. Ekki var hlaða við hann, en heyi kastað norðan við hann.
Beitarhús voru niðri við Lagarfljót, utan við s. k. Smiðjuhól. Það voru
þrjú fjárhús, sem stóðu samhliða, og sneru dyr í austur. Heyhlaða var
vestan þeirra, og var úr henni gengið fram í garða allra húsanna. Hey-
garðar voru eftir endilöngum fjárhúsunum og krær til beggja hliða, og
þannig var í öllum fjárhúsum í Gunnhildargerði, að undanteknum
Hrútakofanum.
Sauðir voru hafðir á beitarhúsunum, og lágu þeir oft „við opið“, sem
svo var kallað, þ. e. húsin voru höfð opin, og gátu þá kindurnar ráðið
því, hvenær þær leituðu húsa eða voru á beit. Þar voru einnig oft hafðar
vænstu ærnar, og eftir að hætt var að hafa sauði, voru eingöngu ær
hafðar á beitarhúsunum. Fjárrétt, niðurgrafin á þrjá vegu (ekki að aust-
an), var örskammt frá nyrzta húsinu í norðausturátt. Þar var lambféð og
geldféð réttað á vorin, þegar stíað var. Þá voru lömbin tekin og sett í
nyrzta fjárhúsið og höfð þar yfir nóttina, en hleypt til mæðra sinna
snemma morguns. Rúningur sauðfjár fór að miklu leyti fram í réttinni
eða kringum hana.