Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1982, Page 75
MULAÞING
71
fannst ég heldur afkáraleg, því pilsið hennar mömmu var vel við
vöxt á mér, bæði sítt og vítt, en það var reyrt að í mittinu með belti. Að
ofan var ég í kápu svo það bar ekki mikið á þessu, enda ekki hægt að
setja slíkt fyrir sig þegar fram undan var sjálft ævintýrið.
Hvorug okkar kunni mikið á hesta, enda munu þeir sjálfír hafa ráðið
hraðanum, en í brekkunum upp úr Eskifirði voru þá aðeins troðningar
eftir menn og hesta og raunar alla leiðina til Norðfjarðar. En okkur gekk
vel yfir fjallið og síðan riðum við inn grænar grundir Norðfjarðarsveitar í
logni og glaðasólskini sem leið lá heim í Tandrastaði. Þar hittist svo á að
frændi minn var á engjum með allt sitt fólk nema húsfreyjuna sem var
ein í bænum. Við komum þó inn með henni og þáðum góðgerðir. Tæp-
ast hefði þetta verið í frásögu færandi ef ekki hefði greypst óafmáanlega
í huga minn hreinlætið á þessum bæ, sem var þó allt annað en fallegur
utan. Inni var ekkert málað, en allt svo hvítskúrað að undrum sætti.
Stelpan úr kaupstaðnum sér þetta svo ljóslifandi fyrir sér enn í dag,
þótt 60 ár séu gengin á milli.
Nú lá leiðin út í kaupstað þar sem við dvöldum í góðu yfirlæti fram á
sunnudagskvöld. Við höfum víst skemmt okkur vel, því við munum
hafa gleymt öllum loforðum um að leggja ekki seint af stað heimleiðis.
Það var farið að skyggja er við riðum af stað og þegar upp í fjallið kom
var skollin á svarta þoka. Við þokuðumst samt áfram hægt og sígandi.
Allt var hrikalegt og ömurlegt í þokunni, og líklega hefur það verið þess
vegna að Guðfmnu dettur í hug að við séum farnar að villast og vill bara
snúa við. Eg, sem átti að treysta á hana mótmælti ekki, enda aldrei
verið á þessum slóðum áður á suðurleið. Það sást ekki út úr augum og
þokan var blaut og okkur orðið kalt. Hún var búin að snúa sínum hesti
til baka, en þegar ég ætlaði að snúa honum Bleik litla þá vildi hann
annað, hann var ekki aldeilis á því að snúa við, vildi bara halda áfram,
og þarna háðum við mikið einvígi. Loks lét hann þó undan, og við
héldum undan brekkunni, en vorum ruglaðar og vissum ekkert hvað við
fórum.
Allt í einu fannst mér ég sjá ljósi bregða fyrir og segi Finnu það.
Kannski muni vera bær ekki langt undan og nú ættum við að reyna að
hitta á hann. Og þá var eins og Bleikur litli skildi, því nú sneri hann út
af götunni, tók á rás og fyrr en varði vorum við komin á bæjarhlaðið í
Seldal. Þar var fólk gengið til náða og engin ljóstýra sjáanleg. Við bönk-
uðum samt á útidyr og kom húsfreyja sjálf til dyra. Hún bauð okkur
strax inn, og urðum við fegnar að komast í hús úr kuldahráslaganum.
Við sögðum henni að við hefðum verið orðnar villtar, en þá séð ljós