Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1982, Page 76
72
MÚLAÞING
þarna. Hún sagði aftur á móti að þar hefði ekki verið kveikt ljós allt
kvöldið, en nú skyldum við vera í nótt. Þáðum við það fegins hugar. Við
háttuðum ofan í rúm sín hjá hvorri stúlkunni. Gott var að komast ofan í
hlýjuna, og fann ég þá best hvað mér var orðið kalt, en mér hitnaði íljótt
og svaf vært til morguns. Mín stúlka hét Bjarney Olafsdóttir, og fluttist
hún nokkru síðar til Eskifjarðar. Hittumst við þá oft — og alltaf fann ég
ylinn frá henni streyma á móti mér. Það var og er góð endurminning.
Eftir allan þokusuddann og myrkur um kvöldið vaknaði maður við
glaðasólskin og heiðan himin að morgni, og voru nú hafðar hraðar hend-
ur við að komast af stað heim á leið. I þeim svifum sem við erum að
stíga á bak hestunum kemur þeysiríðandi maður í hlaðið í Seldal. Þar
var kominn Þorbergur Guðmundsson frá Neskaupstað. Hann átti ann-
álaða gæðinga og sást sjaldan öðruvísi en á fleygiferð. Hann kom oft til
Eskifjarðar, því þar átti hann systur. Þekktu víst flestir hann á reiðlag-
inu.
Húsfreyjan kvaddi okkur með þeim orðum að Þorbergur væri að fara
til Eskifjarðar og hann ætlaði að verða okkur samferða yfir skarðið. En
svo bætti hún við: „Þið hefðuð átt að láta hann Bieik ráða ferðinni í
gærkvöldi, hann ratar hérna á milli.“
Þetta var rétt hjá Guðríði í Seldal. Þegar við komum upp á skarðið sá
ég það. A háskarðinu þekkti ég nokkuð stóran stein sem við Bleikur
höfðum hringsnúist við þegar við urðum ósammála um hvert halda
skyldi þangað til sá vægði sem vitið hafði meira. Þá fór hann með okkur
heim að Seldal, því það var hann sem rataði að bænum. Þar var ekkert
ljós og hvergi annars staðar sjáanlegt. Ég hélt það væri ég sem stjómaði
ferðinni, en það var hann sem sá um að við værum ekki að þvælast um í
þokusudda og myrkri alla nóttina.
Þetta er lof mitt um lítinn hest sem var svo ratvís að undrum sætti.
Ekki þurfti, þegar heim kom, að skila honum. Bara að taka af honum
söðulinn. Svo rölti hann út að Stekk eftir vel unnið starf.
Af Þorbergi er það að segja að hann fylgdi okkur yfir Oddsskarð og
kenndi mikillar óþolinmæði yfir seinagangi okkar. En þegar á skarðið
kom þaut hann á undan niður fjallið Eskifjarðar megin. Mér sýndist
hann líkastur stórum svörtum fugli þar til hann hvarf sjónum. Ég var
fegin að losna við hann, því hann var alltaf að skipa mér að slá í klárinn,
en ég lét sem ég heyrði það ekki.
Sem betur fór var fólkið heima ekki hrætt um okkur, því þokan kom
svo snemma inn í Eskifjörð að það taldi víst að okkur hefði ekki verið
sleppt frá Neskaupstað.