Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1982, Side 78
74
MULAÞING
Hvorki get ég sagt né sungið
svo sem bæri mér til þín.
En hjartans málið þökkum þrungið
það skal vera kveðja mín.
Þína fáa þekkti eg líka.
Þú hefur mína vegi greitt.
Enda fyllri ástúð slíka
aðeins móðir getur veitt.
Milda, hlýja, blíða brosið
brást mér ei þótt sæir Hel.
Astin getur aldrei frosið
inni við slíkt hjartaþel.
Æ mun tapað ýmsum gróða,
yfir fellur tímans hjóm.
En minning þína, geislann góða,
geymi ég eins og helgidóm.
Jón Sigfússon nam við Alþýðuskólann á Eiðum veturna 1929-3Í.
Síðan var hann um hríð við ýmis störf á Héraði. Hann hóf búskap á
Hjartarstöðum í Eiðaþinghá árið 1935, en árin 1937-1939 bjó hann á
Framnesi í Reyðarfirði. Frá Framnesi fluttist hann að Dalhúsum á
Eyvindarárdal, er þá voru enn í Eiðaþinghá. Á Dalhúsum bjó Jón til
ársins 1945, síðastur bænda þar, en tók það ár við stólsbúinu á Eiðum
og stýrði því til ársins 1956, jafnframt því sem hann annaðist póst- og
símstöðvarstjórn á staðnum. Eftir að hann lét af bústörfum dvaldist
hann á Eiðum sem póst- og símstöðvarstjóri til dauðadags, en hann lést
um aldur fram hinn 9. ágúst árið 1966. Kona Jóns var Sigurlaug Jóns-
dóttir frá Marbæli í Skagafirði.
Jón Sigfússon fékkst nokkuð við ljóðagerð. Einkum mun hann hafa
sinnt henni á síðari árum er meira tóm gafst en áður frá daglegum
önnum. Kveðskap sínum hélt hann hins vegar ekki mikið á lofti, þó
birtust nokkur ljóða hans og einhverjar lausavísur í blöðum og tímarit-
um. Nærtækt er fyrir þá, sem eiga Múlaþing frá upphafí, að fletta upp í
1. hefti þess en þar er prentað fagurt ljóð eftir hann og nefnist Regn.
Fáein kvæði Jóns birtust í Austra á árunum 1963-1964 og eitt kvæði var
prentað í Verkamanninum á Akureyri. Ljóðið Vor, sem hér er birt, kom
í Heima er bezt árið 1960 en er ársett í handritum höfundar 1944. Sýnir
þetta, að þótt Jón sleppti einu og einu ljóða sinna á prent, lét hann sér
ekki harla ótt þar um. Hann var því einn þeirra manna er yrkja sér til
hugarhægðar ellegar yndisauka og ræður sá blær, er hvílir yfir líðandi
stund, til hvors háttarins er brugðið.
Tíðust yrkisefna Jóns Sigfússonar eru íslensk náttúra í fegurð sinni
ellegar nöturleika — fegurðin er þó oftast ríkjandi — og maðurinn
sjálfur á ævigöngu sinni, í lífi og andspænis dauða, í æskuþrá og elh-
kvíða. I ljóðinu 1 brekkunnar skjóli tvinnar hann saman þessi kærustu
yrkisefni sín, manninn og náttúruna, á harla listilegan hátt.