Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1982, Page 113
MULAÞING
109
barnakennsluna, með að tryggja góða upphitun í skólastofunni, láta
hreingera hana áður en kennslan hefst í haust. Ennfremur að reyna að
fá á einhvern hátt rafmagn til ljósa í skólahúsið fyrir veturinn.“
I gjörðabók Rafveitu Stöðvarhrepps 18. des. 1952, þar sem færðar
eru ákvarðanir stjórnar Rafveitunnar um gjaldtaxta vegna rafmagns-
notkunar, kemur fram að „Barnaskólanum“ er ætlað að bera ákveðið
gjald. Bendir það til þess, að þá hafi verið búið að rafvæða húsið til
lýsingar.
12 árum eftir ábendingu Stefáns Jónssonar námstjóra — þ. e. 2.
febr. 1956, ræðir skólanefnd „nauðsyn þess að skólinn fái afgirta lóð,
sem skólabörnin geti unnið við að fegra og klæða skógi.“ — og —
„Formanni skólanefndar falið að hlutast til um að skólaskoðun fari
fram í byrjun hvers skólaárs." — Ennfremur — „Skólastjóri og skóla-
nefnd létu í ljósi ánægju sína yfir lagfæringu þeirri sem gerð hefur verið
á skólastofunni með dúklagningu o. fl.“
Skólaárið 1943-1944 er komið nýtt form á dagbók og m. a. gert ráð
fyrir könnun læknis (og hún framkvæmd) á sjón, heyrn, ástandi tanna,
hryggskekkju, lús eða nit — ennfremur berklaprófun o. fl. Hvort allir
þessara þátta hafa verið prófaðir áður, get ég ekki fullyrt, en um 1930
var farið að framkvæma berklaprófun. (R. H.).
Við skólaskoðun 24. okt. 1946 er auk framangreindra atriða skráð við
nöfn viðkomandi hverjir hafi fengið mislinga og „kikhósta“ og 20. okt.
1948 bætast við merkingar við skarlatsótt, barnaveiki, bólusetningar
við barnaveiki og liðagikt. Þó eru nokkur þessara atriða að eins athuguð
öðru hvoru, en ekki að staðaldri. Lýsi virðist mér ekki hafa verið gefið í
skóla.
VI.
Verkleg kennsla
Þrátt fyrir að mér hafi ekki tekizt að finna neitt í gjörðabókum skóla-
nefndar og hreppsnefndar um verklega kennslu fyrr en í fundargerð
skólanefndar frá 14. okt. 1952, hef ég vissu fyrir því að hún byrjaði 2-3
árum fyrr (sbr. kennslu Jóns V. Kristjánssonar). 1 nefndri fundargerð
segir: „Samþykkt að reyna [að] koma á verklegri kennslu fyrir börnin
um 8 vikna tíma í vetur, smíðakennslu fyrir pilta og handavinnu
stúlkna. Formanni skólanefndar falið að ráða kennara til verklegu
kennslunnar.“
2. feb. 1956 er eftirfarandi bókað á fundi skólanefndar: „Rætt var um
verklega kennslu skólabarna. Var ákveðið að skólanefndin hlutaðist til