Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1982, Page 136
ROGNVALDUR ERLINGSSON
Horfnir tímar
Á síðastliðnum 30-40 árum hafa atvinnuhættir og vinnubrögð breyst
meira en á öllum tímanum frá landnámsöld. Við sem nú erum komin á
efri ár höfum lifað lífi og unnið ýmis verk sem næsta kynslóð mun ekki
skilja hvernig unnin hafa verið, og þegar mín kynslóð verður gengin
fyrir ætternisstapann munu þau gleymast.
Enn man ég vel engjaheyskap, já jafnvel að heyjað var frá heimili
mínu austur á Gilsárdal, afréttardal að hálfu í Vallahreppi og hggur
austan við fjallið sem bæir á suðurbyggð í Fljótsdal standa norðan und-
ir.
I fyrsta sinn sem ég fór í göngur — 13 ára — átti ég engin stígvél en
var í skinnsokkum, og engir áttu þá hvílupoka. Menn urðu bara að
skýla sér á nóttunni með utanyfirúlpunni einni, þá áttu margir kaldsam-
ar nætur.
Ég vakti líka yfir vellinum í æsku því engar girðingar voru hér um tún
þegar ég man fyrst, aðeins grjótgarður fyrir stórgripi, langt frá túni, sem
engri skepnu hélt þó. — Svona gæti ég lengi talið. — Tvisvar verður
gamall maður barn, segir máltæki. Ég hygg mikinn sannleik í þessu
spakmæli falinn, þó nokkuð muni það einstaklingsbundið.
Eg sem er á miðjum sjötugsaldri man nú betur ýmsa atburði frá fyrri
tíð en ég mundi þá, jafnvel skömmu eftir að þeir gerðust. Kannski
stafar það af því að nú hef ég meiri tíma til að rifja þá upp. Já, þeir
koma oftar fram í hugann en áður, nú á síðari árum.
Þegar ég lít til baka verður ein vornótt — og dagarnir fyrir og eftir
hana — og stundum líka næsta nótt — mér minnisstæðara en flest
annað sem ég hef lifað og unnið við. — Kannski ætti ég fremur að kalla
það sumarnótt, því þessi nótt var venjulega síðast í júní eða fyrst í júlí.
Og ekki var hún neinn dans á rósum hvað vinnu snerti. — Nei, og
einmitt eina þessa nótt munaði litlu að ég yrði föðurlaus. Það var aðeins