Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1982, Blaðsíða 180
SIGURÐUR KRISTINSSON
Hjálpleysa — sjaldfarin gönguleið
Ef við lítum á kort af austanverðu íslandi, beinast fljótt sjónir að mis-
skiptingu hálendis og láglendis, breiðfjarða og þröngfjarða, víðáttumik-
illa heiðalanda vestan Lagarfljóts og snarhækkandi fjalla með þéttum
hæðalínum, 50-60 að hverjum tindi austan fljótsins. Fljótlega kemur
fram löngun til að líta á hæðatölurnar og má segja að þar gefi á að líta
fyrir hvern þann, sem kann að áætla um landslag eftir kortinu, því
býsna margar tölur ná þúsundinu eða meir í Austfjarðafjaflgarðinum
einum. Hið rétta er að 150 fjöll ná þeirri hæð í fjallgarðinum, en hann
nær frá austurbrún Vatnajökuls norður að Osfjöllum milli Héraðsflóa og
Borgarfjarðar eystri. Hinir eiginlegu Austfirðir skerast því allir inn í
hann, en nyrstu og breiðustu firðirnir þrír á Austurlandi, Héraðsflói,
Vopnafjörður og Bakkaflói, eru í raun réttri framhald norðlensku fjarð-
anna. Fljótsdalshérað skilur Austfjarðafjallgarðinn allan frá megin-
hálendi landsins, nema þar sem hann gengur út frá Vatnajökli. Alls
staðar snýr hann hvassbrýndum tindum til hafs en héraðsmegin eru
fjöllin ávöl, jökulsorfin og aflíðandi. Þeim megin eru víðast hvar mjög
góðar gönguleiðir allt til efstu eggja, fjarðamegin eru víða gífurleg
hamraflug, en þó má finna allgóðar gönguleiðir til flestra tinda þeim
megin frá. Einn er þó galli á gjöf Njarðar og hann er sá hve Austfjarða-
þokan er aðsækin og þrálát. Hún byrgir oft skyndilega sýn og getur
eyðilagt á svipstundu góðan göngudag, svo að mikil fyrirhöfn verður til
lítils. Öruggasta tækifærið til að njóta bjartviðris á Austurlandi er að
nota vestan og suðvestan áttina, taka daginn snemma og hafa náð
hæstu tindum klukkan tvö til þrjú síðdegis og vera kominn niður fyrir
sólarfall. Klukkan sex síðdegis og eftir það má búast við að þokan fari
að sýna sig og getur gert niðurleið tafsama og erflða öðrum en þaul-
kunnugum mönnum.
Eins og að líkum lætur eru víða djúpir og þröngir dalir, sem liggja