Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1982, Blaðsíða 181
MULAÞING
177
milli fjarða og Héraðs, einkum þó um miðhluta fjallgarðsins — milli
Reyðarfjarðar og Héraðs, því segja má að þar sé um heilt dalakerfi að
ræða. Allt frá upphafi byggðar á Austurlandi hafa sumir þessara dala
verið fjölfarnir, bæði af gangandi mönnum og ríðandi svo og af mönnum
með trússhesta. Fljótsdalshérað sjálft má heita hafnlaust og því urðu
ferðir um dali og vörp Austfjarðafjallgarðsins tíðari en annars hefði
orðið, þar eð fara varð þær leiðir með alla verslunarvöru að og frá
heimilum á Héraði. En fjöllin milli dalanna hafa jafnan verið fáfarin og
svo mun enn um sinn. Þar læsist þó seiðmagn hins ónumda lands um
ferðalanginn, en í þeirri kennd eru megintöfrar allra óbyggða og regin-
fjalla fólgnir og fundnir í senn. En til að sannfærast um hrífandi fjöl-
breytni fjalla, fjarða, dala og Héraðs á Austurlandi, þarf bæði tíma og
erfiði, fyrirhöfn sem skilur eftir sig minningar í sál og lúa í limum.
Otrúlega oft getur þó glöggur ferðamaður skynjað fjölbreytni náttúr-
unnar frá þjóðvegi. Víða þarf að fara með gætni og fyrirhyggju, svo
menn gjaldi ekki fyrir með lífi og heilsu, enda er háttvísi gagnvart
náttúrunni eina leiðin til að njóta ferðar fullkomlega. Og svo þarf tíma
til að fara um þessar slóðir svo að sjón geti orðið allri sögu ríkari.
Hér er ætlunin að minnast sérstaklega á einn dalinn milli Fljótsdals-
héraðs og Austfjarða — nánar tiltekið milli Reyðarfjarðar og Héraðs —
og það er Hjálpleysan. Það er stysta leiðin milli Héraðs og fjarða en
jafnframt ein af þeim sjaldförnustu bæði nú og fyrr, og líklega hættu-
legust við vissar aðstæður eftir árstímum og veðurfari. Þó er leiðin oft
vel fær og hættulaus gangandi mönnum og var jafnvel farin með fjár-
rekstra áður fyrr, þótt slíkt væri talið varasamt. Þar er skemmst frá að
segja að hvergi á Austurlandi verður gengið eins gersamlega bæði á vit
og vald fjallanna eins og þar, enda er dalurinn aðeins örmjó skora á
nokkru svæði með rúmlega 1200 metra háum tindum til beggja handa
og eru þeir hæstu tindar norðan Þrándarjökuls. Hjálpleysan liggur fyrst
beint vestur frá botni Reyðarfjarðar norðan Áreyjatinds (sjá kort), en á
að giska 6 km frá bænum Áreyjum í Reyðarfirði sveigir dalurinn til
norðvesturs á hávarpinu og heldur þeirri stefnu alla leið til Héraðs. Til
beggja handa frá varpinu renna Hjálpleysuár, önnur til Reyðarfjarðar
en hin að litlu vatni sem er raunar uppistaða við innstu skriðuhólana í
megindalnum og nefnist Lambavallaá. Frá vatninu rennur svo Gilsá í
alldjúpu gljúfri og víða torgengu, og fellur hún svo í Grímsá fast neðan
við Grímsárfoss sem nú er að vísu horfinn vegna virkjunarfram-
kvæmda, en íbúðarhús starfsmanna Grímsárvirkjunarinnar standa á
syðri gljúfurbarmi Gilsár. En nú skulum við hugsa okkur að við göngum
Málaþing 12