Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1982, Page 185
MULAÞING
181
skyldi voga sér þar í gegn í lausasnjó, síst af öllu ef honum hleður niður
ofan á harðfenni. En er þá ekkert nema ógnina að sjá í Hjálpleysunni?
Því er til að svara, að svæðið frá Þröng inn að vatni er einhver sérkenni-
legasti gróðurreitur sem farið er um í fjalldölum Islands, lokaður og
friðsæll. Oft er þar blæjalogn þótt flóðgolan næði um Héraðið, en þar er
líka allt undir fannahjúpi á vetrum þó að auð jörð sé á innan verðu
Héraði. Eg hef nokkrum sinnum gengið um velli og hóla í Hjálpleysu,
valið til þess bjarta sumardaga og verið ýmist einn á ferð eða með
öðrum, hvílt mig í lautunum og teygað ilm úr lyngi, athugað plöntuteg-
undir og tínt steina. Og mér hefur orðið hugsað til orða skáldsins:
,,í lautinni þar sem lyngið grær
og lindin er hljóð og angurvær
má glataða gleði finna.
Friðland á sá, sem flugi nær
til fjallahlíðanna sinna.
Ef ég við borginni baki sný
brosir við augunum veröld ný
full af ódáinsangan.
Þar hefjast bláfjöllin hátt við ský
með hádegissól um vangann“.
Ég verð að síðustu að láta þá ósk í ljós að aldrei verði lagður bílvegur
inn í Hjálpleysuna. Slíkt mundi rjúfa og skemma stórlega heildarmynd
hennar, hún er ekki það breið að vegarrönd og hjólför stórspilla henni.
Engum heilbrigðum manni er vorkunn að ganga þangað sem sér inn að
vatni og flugtækni er nú á því stigi (þyrlurnar) að þeir sem hreyfíhaml-
aðir eru geta slegið sér saman um ferð þangað ef önnur skilyrði eru til
staðar.
HELSTU HEIMILDIR:
Árbók F. í. 1974 — Austfjarðafjöll — eftir Hjörleif Guttormsson.
Sveitir og jarðir í Múlaþingi, 2. bindi. Otg. Búnaðarsamband Austurlands.
Ýmsar sagnir af Fram-Völlum, einkum móður minnar, Salnýjar Jónsdóttur frá Grófar-
gerði, er sat nokkur sumur yfir kvíaám í Hjálpleysu.
Gunnar Kolbeinsson yfirkennari hefur greint heiti bergtegunda úr Hjálpleysunni, og kann
ég honum bestu þakkir fyrir.