Skagfirðingabók - 01.01.2014, Qupperneq 10
SKAGFIRÐINGABÓK
10
og foreldrar mínir fluttir í það með okkur
börnin, en vinnufólkið svaf enn í gamla
bænum. Fólkið var allt á engjum alllangt
frá bænum og móðir mín að færa því kaffi.
Gömul kona var heima að gæta okkar
barnanna. Við Sveinn og Kristín vorum
í berjamó, en Björg, sem þá var nýfædd,
svaf í nýja húsinu. Gamla konan var í
torfbænum að elda graut, þegar kviknaði
í reykháfnum og eldurinn breiddist fljótt
út. Gömlu konunni varð það fyrst fyrir
að bjarga grautnum, sem átti að vera til
kvöldverðar, og bar pottinn út á hlað.
Síðan hljóp hún inn aftur, greip leirtau og
annað lauslegt og kom því út, en gleymdi
sofandi barninu.
Fólk dreif að af næstu bæjum og
bjargaði barninu, sængurfötum og
klukku úr nýja húsinu, en allt annað
brann til kaldra kola. Kirkjan sviðnaði,
en brann ekki. Það eina, sem skemmdist í
henni, var forláta ljósahjálmur úr mislitu
gleri, sem björgunarmenn fleygðu út, en
hann fór auðvitað í þúsund mola. Ef fleira
hefði verið lauslegt í kirkjunni, hefði það
farið sömu leið.
Faðir minn hafði verið í kaupstaðarferð
og var á leið heim. Hann sá reykinn langt
að og hraðaði för sinni sem mest hann
mátti. Brátt hitti hann fólk, sem sagði
honum hvernig komið var og bar sig
aumlega fyrir hans hönd. Hann spurði þá,
hvort heimilisfólkið hefði bjargast. Þegar
honum var sagt að svo hefði verið, sagði
hann: „Yfir hverju er þá verið að kvarta?“
Páll á Ysta-Mói, föðurbróðir minn,
kom síðan og sótti mig og systur mína,
en Sveinn var sendur til Siglufjarðar
á barnaskóla og var þar um veturinn.
Fullorðna fólkið hafðist við í fjárhúsi.
Björg móðursystir mín, fór til Ameríku
til tengdamóður sinnar, sem þar bjó, með
Fell í Sléttuhlíð um miðja 20. öld. Hér stendur kirkjan frá tíð Valgerðar og íbúðarhúsið sem
Sveinn faðir hennar byggði eftir brunann 1899. Í baksýn er bærinn Skálá upp með gilinu sem
Skáláin hefur myndað á leið sinni ofan af Skálárdal. Staka húsið suður og niður frá bænum er
skólahúsið. Skálárhnjúkur rís hæst suður og upp frá bænum.
Ljósm. Páll Jónsson. Eigandi myndar: HSk.