Skagfirðingabók - 01.01.2014, Síða 16
SKAGFIRÐINGABÓK
16
svo til, að hún varð sjálf stjúpa, er hún
tók að sér sjö ára gamla dóttur hans og
uppkominn son, sem þá var í stríðinu sem
hermaður. Stjúpbörnum sínum reyndist
hún með ágætum og arfleiddi þau síðar
að öllum eignum sinum úti, en þær voru
þónokkrar. Eftir stríðið var atvinnuleysi
í Bretlandi og þá bjuggu þau hjónin um
nokkurra ára skeið í Suður-Afríku. Maður
hennar var byggingameistari, og hún
vann við hjúkrun. Maður Bjargar dó árið
1965. Eftir að hún missti hann kom hún
heim, en var það rótlaus, að hún gat ekki
sest hér að. Hún var ýmist í Englandi,
Bandaríkjunum hjá stjúpdóttur sinni,
sem þar bjó, eða hér, þar til hún keypti
hús í Hastings í Englandi og bjó þar til
æviloka. Hún var heilsutæp síðustu árin,
og enda þótt hún hefði hjúkrað á enskum
spítölum mest alla ævi sína, kom hún
samt heim til að fá bót meina sinna. Hún
giftist aftur enskum manni, Harold Cox,
þegar hún var 75 ára gömul, og tæpu ári
seinna kom hún heim fársjúk. Hún var
lögð á Landspítalann, en ekkert var unnt
að gera henni til hjálpar. Hún dó vorið
1976. Hún lagði svo fyrir að líkið yrði
brennt og askan flutt í Fell og sett í leiði
foreldra hennar. Þá hafði hún búið fjarri
Íslandi í rúm 50 ár.
Ég var 12 ára þegar stjúpa mín kom. Ég
tók henni mjög vel og fannst tilbreyting
að fá unga konu á heimilið, enda kenndi
ég í brjósti um hana fyrir að taka þetta
heimili að sér, þar sem amma mín hafði
ráðið svo lengi. Hún kom þarna með
nýja siði, ólíka þeim sem áður voru, og
heyrði ég vinnufólk tala um á stundum,
að hún svæfi fram eftir á morgnana og
væri nokkurskonar dúkka á heimilinu.
Faðir minn var henni ævinlega nærgætinn
og góður, þrátt fyrir sitt stóra skap, svo
enginn þorði annað en að meta hana sem
húsmóður, enda sómdi hún sér með prýði
á svo gestkvæmu heimili.
Hún bjó til góðan mat. Þá var þrímælt
á heimilinu. Fyrst kaffi á morgnana, þá
morgunmatur, brauð, grautur, skyr eða
hræra, þá hádegiskaffi, heitur matur
klukkan 3, fiskur, kjöt og kjötsúpa
eða mjólkurgrautur. Eftirmiðdagskaffi
var klukkan 6 og kvöldmatur klukkan
10, vanalega hræra og slátur eða smurt
brauð. Allir borðuðu í ömmustofu,
nema pabbi. Honum var færður matur í
hans stofu, og þar borðuðu gestir. Hann
borðaði aldrei með hinu fólkinu, en við
krakkarnir snæddum með vinnufólkinu.
Stjúpa mín sat ekki til borðs. Hún
skammtaði matinn, en vinnukonur báru
á borð.
Í nánd við Fell voru þrjú kot, sem öll
voru í byggð, þegar ég var barn, Minna-
Fell, Kappastaðir og Fjall. Faðir minn
átti Minna-Fell og Kappastaði, en amma
mín Björg átti Fjall, en gaf föður mínum
það í brúðargjöf þegar hann kvæntist
aftur. Hún átti fleiri jarðir í Fljótum,
því að hún var vel stæð kona. Á þessum
kotum öllum voru fátækir leiguliðar,
höfðu eina kú og nokkrar kindur. Þeir
höfðu skiprúm hjá föður mínum upp
á hlut, þegar mikill afli barst úr sjó.
Leiguna eftir þessi kot greiddu þeir með
dagsverkum um heyskapartímann. Þetta
var fátækt fólk, en nægjusamt. Oft var
ég send með kaffi, þegar kaffilaust var
á kotunum, eða annað, sem vantaði,
því að stjúpa mín var mjög greiðug og
gaf miklu meira en tíðkaðist áður. Faðir
minn sagði aldrei neitt við því, enda var
það ekki hans máti að finna að við konu
sína. Hann reyndist líka vel þessu fátæka
fólki og hjúum, sem hjá honum unnu.