Skagfirðingabók - 01.01.2014, Page 19
ÆVIMINNINGAR
19
byggt höfðu steinhús, en það þótti mikið
átak í þá daga, enda fyrsta steinhúsið í
Sléttuhlíð. Þær tóku þessi ungu hjón inn á
heimilið og þar átti unga konan sitt fyrsta
barn. Maðurinn stundaði sjó, en það
var mesta basl á þeim. Hjónin á Bræðrá
fluttust síðar að Höfða, en ungu hjónin
komu þar aldrei, meðan gömlu hjónin
lifðu. Eftir þeirra dag fengu ungu hjónin
jörðina, og bjuggu þar góðu búi í marga
áratugi og komu upp mannvænlegum
börnum.
Þegar skólanum á Bræðrá lauk um
vorið, var ég í vafa um, hvað gera skyldi
og var heima í Felli næsta vetur. En þá fór
ég alvarlega að hugsa um að læra meira og
helst að fara alveg að heiman. Mér datt
þá í hug að sækja um unglingaskóla á
Sauðárkróki, en þar var ágætur skólastjóri,
Jón Björnsson frá Veðramóti. Mér fannst
ráðlegra að tala um þetta við stjúpu mína,
því að hún fengi frekar leyfi til þessa fyrir
mína hönd, en ef ég færi beint til pabba.
Hún var fús að leggja gott til málanna og
leyfið fékkst. Ég sótti um skólann og fékk
inngöngu í hann um haustið.
Það var óvenjulegt að heimasætur
færu í skóla á þeim árum nema til að læra
fatasaum og matreiðslu, eins og stjúpa
mín hafði gert og kom henni vel. Ég aftur
á móti hafði engan áhuga á því, enda
staðráðin í að verða aldrei sveitakona,
mér leiddust öll sveitastörf. Ég var þá
þegar farin að hugsa mér að komast í
Kennaraskólann og átti þetta að verða
undirbúningur undir hann. Ég valdi þann
skóla af því að ég vildi vera sjálfstæð og sjá
um mig sjálf og komast að heiman án þess
að giftast. Ég var varkár í ástamálum og
leist aldrei vel á glaumgosa.
Valgerður í hlaðvarpanum á Höfða á Höfðaströnd með fermingarbróður sínum Antoni Jónssyni
frá Hrauni í Sléttuhlíð og konu hans Steinunni Guðmundsdóttur frá Bræðraá í Sléttuhlíð.
Ljósm.: Sveinn Jónsson