Skagfirðingabók - 01.01.2014, Page 22
SKAGFIRÐINGABÓK
22
Þennan vetur á Sauðárkróki skeði
undrið. Ég varð ástfangin í fyrsta skipti
á ævinni. Hann hét Jóhannes Pálsson,
kallaður Hanni Páls. Svo hagaði til, að
Hanni var við smíðanám í húsi, sem ég
fór fram hjá á leiðinni í skólann, og kom
þá út í dyr og við töluðum saman. Við
vissum víst bæði, hvernig ástatt var, en
það varð aldrei meira. Við dönsuðum
saman og stálumst til að dansa vangadans,
en ekki svo mikið sem einn koss fór okkur
á milli. Hanni var glæsilegur í sjón, vel
vaxinn og með svo falleg augu, að ég hef
aldrei séð neinn mann fyrr eða síðar, sem
hefur haft jafn falleg augu og hann.
Sunnudaginn fyrsta í sumri kom
okkur unglingunum saman um að fá
okkur bát og róa út á fjörðinn. Hann
var spegilsléttur og eyjarnar Málmey og
Drangey spegluðust í honum. Stefanía
vinkona mín og yngsti sonurinn á
Veðramóti höfðu þá verið að skjóta sig
hvort í öðru um veturinn, og þau komu
með okkur ásamt Sæmundi. Við Hanni
sátum hvort á móti öðru í skutnum, en
hinir strákarnir reru. Þessi sunnudagur er
einhver hinn minnisstæðasti í lífi mínu
og minningin um Hanna og samband
okkar, sem var saklaust og hreint, aðeins
platonskt. Daginn eftir þessa bátsferð
fórum við Stefanía heim. Ég í Fell og hún
í Grafarós. Ég hélt áfram að búa mig undir
að fara í Kennaraskólann, sem ég gerði, og
þar með var þessu ævintýri lokið.
Ég hitti Hanna á götu í Reykjavík
nærri hálfri öld seinna. Ég þekkti hann
þá ekki, en hann þekkti mig. Hann var
nú orðinn feitur karl, en augun voru þau
sömu fallegu. Við minntumst gamalla
daga og vorum nú bæði lífsreynd.
Hann var þá giftur, en ég ekkja. Hann
er nú dáinn. Stefanía vinkona fór síðar í
Kvennaskólann í Reykjavík. Hún giftist
Aðalsteini Ólafssyni á Patreksfirði og
settist þar að. Hún dó ung frá mörgum
börnum.
Áður en skólanum lauk um vorið,
talaði ég við Jón skólastjóra og bað
hann að hjálpa mér til að komast í
Kennaraskólann, og tók hann því vel.
Hann skrifaði Magnúsi Helgasyni, sem
þá var skólastjóri Kennaraskólans og sótti
um inntöku fyrir mig næsta vetur. Ég fékk
inngöngu í skólann. Þetta fékk ég að vita
um mitt sumar og gladdist mjög. Ég sneri
mér nú aftur til stjúpu minnar, sem ég
vissi að hafði öll ráð í hendi sér gagnvart
pabba, og hún reyndist mér vel eins og
fyrr. Ég fékk leyfi til að fara í skólann.
Ég var mjög pjöttuð á þessum árum
Fyrsta ástin. Jóhannes Pálsson trésmiður á
Sauðárkróki.
Eigandi myndar: HSk