Skagfirðingabók - 01.01.2014, Blaðsíða 25
ÆVIMINNINGAR
25
fengið neina veiki heima nema mislinga.
Frú Anna sótti lækni og Jón kom til mín
á hverjum degi og sótti meðul handa mér,
en ég lá heima. Þetta tafði mig dálítið frá
náminu og þurfti ég að leggja harðara
að mér á eftir til að ná hinum. Magnús
Helgason, skólastjóri, var alveg sérstakur
ágætismaður og skildi vel að fjarvist mín
var af veikindum, en ekki skrópi, enda
talaði frú Anna um þetta við hann.
Auk skólastjóra voru kennarar í
skólanum þennan vetur Ólafur Dan
Daníelsson, Sigurður Guðmundsson og
Jónas Jónsson frá Hriflu. Minnisstæðastur
af þessum kennurum er mér Jónas frá
Hriflu. Ég minnist þess ekki, að hann
tæki okkur upp til að vita um kunnáttu
okkar, en talaði sjálfur mestallan tímann
um menn og málefni. Sérstaklega talaði
hann miður vel um Kvennaskólann og
fröken Ingibjörgu H. Bjarnason. Hann
átti að kenna náttúrufræði, en það eina
sem hann kenndi okkur í því sambandi,
var að stoppa upp önd, sem mér fannst
þarflaust og að engu gagni. Það var
lítið um skemmtanir í skólanum, bara
skólaskemmtun um miðjan vetur. Ég
bauð Jóni þangað.
Björg, amma mín í Felli, bað mig að
koma til systur sinnar, Margrétar Jóns-
dóttur, móður Jóns Þorlákssonar, sem
þá var landsverkfræðingur. Kona Jóns,
Ingibjörg Claessen, tók mér mjög vel og
fór með mig til Margrétar, sem hafði mjög
fínt herbergi hjá þeim hjónum. Hún hafði
gaman af að frétta af systur sinni. Þær
höfðu ekki haft neitt samband síðan þær
voru heimasætur á Undirfelli, en Björg
amma mín fluttist ung með systur sinni
Katrínu, sem giftist séra Jóni Norðmann
á Barði í Fljótum og var hjá þeim, þangað
til hún giftist Sæmundi afa mínum.
Frú Ingibjörg var ákaflega notaleg við
tengdamóður sína. Hún bað mig að koma
aftur og tala við hana. Svo sagði hún, að
það væri vani hjá þeim hjónum að bjóða
skyldfólki Jóns í mat um jólin. Þangað
fór ég. Frú Ingibjörg var há, grönn og
glæsileg og góðleg. Jón var lágur vexti,
þybbinn og festulegur á svip, en fremur
þurrlegur. Þau hjón áttu engin börn, en
tóku tvær fósturdætur seinna.
Ég var ekki sérlega ánægð í Kennara-
skólanum og fannst allt betra, sem Kvenna-
skólastúlkurnar voru að læra. Ég var nú
líka farin að efast um, að kennsla yrði
mitt ævistarf. Í Kvennaskólanum var öll
kennsla miðuð við að stúlkurnar yrðu
færar sem húsmæður. Þar var kennsla í
meðferð ungbarna, fínn léreftssaumur og
falleg handavinna. Mér fór nú að detta í
hug að fara í Kvennaskólann næsta vetur.
Ég mátti ekki láta þessa hugdettu mína
uppi við neinn. Það hefði verið talinn
argasti hringlandaháttur. Ég var mjög frjáls
í fasi og lífsglöð á þessum árum, hugurinn
beindist ekki að neinum sérstökum manni,
aftur á móti fór nú að bera á því að Jón
gætti mín meira en áður og fór hann nú
að fá glósur um það við borðið. Hann
skrifaði í póesíbók mína þessa stöku:
Óskirnar læt ég ekki hér,
því enginn má þær heyra.
Ég segi þær allar einni þér,
en ekki hérna meira.
Þessar óskir hans fékk ég síðar að heyra,
áður en ég fór heim um vorið. Ég hélt
áfram að umgangast hann sem góðan
vin, en ekkert fram yfir það. Hann var
góður ráðgjafi og sérstaklega hlýr, sem ég
kunni að meta eftir strangt uppeldi hjá
föður mínum.