Skagfirðingabók - 01.01.2014, Síða 26
SKAGFIRÐINGABÓK
26
Kennaraskólanum var snemma sagt
upp. Ég tók sæmileg próf og gat þess vegna
haldið áfram námi þar. Ég fékk fljótlega
skipsferð norður, en ég var alltaf heima í
Felli á sumrin. Hitt skólafólkið fór seinna,
stúlkurnar heim til sín, en sumir piltarnir í
síld til Siglufjarðar, en þar var helst von um
sæmilegt kaup. Jón fór þangað um vorið,
en hafði verið þar áður í síldinni.
Um haustið var ég beðin að kenna
börnum í Kvíabekk í Ólafsfirði. Þetta
freistaði mín svo, að ég tók boðinu.
Ég hafði aldrei unnið fyrir kaupi áður.
Þessi skóli var nokkurs konar grein úr
aðalskólanum, sem var í kauptúninu. Það
var of langt fyrir börnin að ganga þangað
daglega. Ég vildi líka gjarnan vita, hvernig
mér líkaði að kenna. Ég hafði ekki fest
mér samastað í Reykjavík um veturinn,
svo allt var í lagi þess vegna.
Ég skrifaði Jóni, þegar hann var kominn
suður, og sagði honum að ég kæmi ekki
til Reykjavíkur, eins og ég hafði búist við
þegar ég fór heim um vorið. Ég fékk bréf
frá honum aftur, þar sem hann er mjög
vonsvikinn og segir meðal annars: „Ég
hef fengið gott herbergi á Nýlendugötu
24. Ég prýddi það og gladdist, af því að
ég hélt að þú myndir sjá það.“ Á öðrum
stað í bréfinu segir hann: „Þú hefur dulið
hug þinn fyrir mér og virðist mér torráðin
gáta.“ Þetta var mikið svartsýnisbréf og
mér þótti það miður, af því að hann var
svo góður vinur minn.
Ég fór til Ólafsfjarðar og hitti þar
formann skólanefndar, Pál Bergsson
kaupmann í Ólafsfjarðarhorni. Ég var
þar nokkurn tíma meðan börnunum
var raðað niður. Sveitabörnin nálægt
Kvíabekk áttu að vera í skóla þar og ég
að kenna þeim. Þetta voru góð börn, 10–
13 ára, kunnu lítið og voru misjafnlega
Valdimar Halldórsson á Kálfaströnd og Jón
Árnason í Garði, Mývatnssveit 1914, á því
ári sem Valgerður kynntist Jóni. Þeir félagar
eru í sínu fínasta pússi en Valdimar sveita-
mannslegur til fótanna.
Valdimar fór til Ítalíu 1921 með Tryggva
Sveinbjörnssyni Svörfuði. Þeir voru ásamt
Ríkharði Jónssyni og Eggert Stefánssyni með
Davíð Stefánssyni á eyjunni Capri þar sem
Davíð orti kvæðið Katarína. Þura í Garði,
systir Jóns, orti hins vegar: Þegar Valdi fór til
Ítalíu:
Hugurinn hvergi finnur frið,
flýgur yfir sundin.
Ó, hvað mér er illa við
Ítalíu-sprundin.
Ljósm.: Bárður Sigurðsson.
Eigandi: Minjasafnið á Akureyri.