Skagfirðingabók - 01.01.2014, Qupperneq 43
ÆVIMINNINGAR
43
felldur þegar bílarnir komu til sögunnar
og var þá orðinn gamall og fótfúinn.
Ég þurfti að sauma allan fatnað á
börnin og fékk því ágæta saumavél,
fótstigna, en slíkt var þá alveg nýtt. Ég
keypti danskt móðinsblað, sem hét
Mönster Tidende og gat því fylgst með
móðnum. Eftir að dæturnar stækkuðu
þurftu þær að vera fínar í tauinu. Alltaf
fékkst efni í fatnað í kaupfélaginu, en
enginn tilbúinn fatnaður. Seinna keypti
ég prjónavél og lét stúlkur mínar prjóna
á hana nærföt og peysur á börnin. Bandið
var spunnið heima, fyrst á rokk, síðan á
spunavél. Ég prjónaði aldrei á vélina. Mín
handavinna var baldýring. Ég baldýraði
upphlutsborða fyrir konurnar í héraðinu
og sendi líka borða suður til Reykjavíkur
til sölu.
Kristín Jónsdóttir frænka mín, sem
með mér var í Felli og á Sauðárkróki hjá
frú Elínu Briem, hafði farið á Kunstflid-
skólann í Kaupmannahöfn fyrir tilstilli
frú Elínar. Sá skóli var fyrir verðandi
kennara í handavinnu. Einnig fór hún til
Skotlands til frænku okkar, Sigrúnar, og
lærði þar kjólasaum. Eftir að Kristín kom
heim, kenndi hún í Kvennaskólanum
á Blönduósi. Þá kenndi þar einnig
Ingibjörg Einarsdóttir, prests í Reykholti,
en móðir hennar, Jóhanna, var systir
frú Elínar Briem. Með þeim Ingibjörgu
og Kristínu tókst svo góð vinátta, að
þær stofnuðu síðar saman Verslunina
Baldursbrá, Skólavörðustíg 4, Reykjavík.
Þetta var mikið átak fyrir tvær efnalitlar
konur. Húsið var áður trésmíðaverkstæði,
en þær breyttu því í verslunarhúsnæði
niðri og íbúð uppi. Þær versluðu með allt,
sem tilheyrði íslenskum búningi og efni
til handavinnu, enda kenndu þær einnig
ungum stúlkum handavinnu ásamt
verslunarrekstrinum. Ingibjörg giftist
síðar Eyjólfi Eyfells listmálara og þau áttu
fjögur börn og ólu upp eitt barnabarn.
Þetta heimili stóð alltaf opið vinum og
vandamönnum, sem leið áttu hjá, og þær
stöllurnar virtust alltaf hafa tíma til að
hjálpa fólki og greiða fyrir því. Verslunin
var rekin með mestu prýði eins og allt
annað, sem þær komu nærri. Ég sendi
upphlutsborðana í þessa verslun og hafði
af þeim góðar tekjur. Ekki leið á löngu,
að ég gæti keypt borðstofuhúsgögn,
ljómandi falleg, útlend fyrir mína
baldýringarpeninga. Seinna keypti ég
körfuhúsgögn í stofu, en þau voru þá
nýjasta tíska. Síðan keypti ég píanó, sem
elstu systurnar lærðu á þegar þær höfðu
aldur til.
Sveinn Þórarinsson frá Kílakoti
í Kelduhverfi hafði lært listmálun í
Danmörku. Hann giftist þar danskri
konu, Karen Agnete Þórarinsson, sem líka
var listmálari. Hún kom upp með Sveini
og þau settust að í Kílakoti í lélegum
húsakynnum, en hún var alin upp í
Kaupmannahöfn við mikil efni og góða
menntun. Allir furðuðu sig á því, að hún
skyldi leggja þetta á sig, að koma hingað
heim með Sveini, bláfátækum manni,
sem ekki var farinn að selja málverk sín
þá að neinu ráði. Þegar þetta barst í tal
við hana sagði hún bara: „Svend er altid
så god og så glad.“
Frú Karen var alltaf hjá okkur, þegar
Sveinn fór í söluferðir suður á veturna,
og kenndi telpunum á píanó. Það var
gott fyrir okkur báðar. Ég fékk þarna
góðan félagsskap og hún vel upphitað
húsnæði, en Kílakot var gamall bær,
sem lak og var alls ekki boðlegur þeirri
ágætu konu. Svona getur nú ástin verið,
og hún brást aldrei hjá þessum hjónum.