Skagfirðingabók - 01.01.2014, Blaðsíða 50
SKAGFIRÐINGABÓK
50
AUGLÝSING
Frá 1. maí n.k. hætti ég lánum á
lyfjum og læknishjálp nema fyrirfram
hafi verið samið um greiðslukostnað.
Jafnframt óska ég, að menn leitist við
að greiða a.m.k. allar smáupphæðir
út í hönd. Það skal fyrirfram tekið
fram, að ekki verður lengur tekin gild
væntanleg kaupfélagsborgun, sumpart
vegna þess, að þar virðist oft vísað í
tóman sjóð, og sumpart sökum þess,
að K.N.Þ. telur sig hafa í hyggju að
hætta öllum millifærslum, a.m.k. í því
formi, sem þær hafa verið.
Auglýsing þessi á sér langa forsögu
og er skrifuð í fullri alvöru. Menn
eru áminntir um að greiða svo götu
hennar, að eigi hljótist óþægindi
né slys af því, að hún sé eigi öllum
héraðsbúum kunn.
15. marz 1933
Jón Árnason, læknir.
Jafnframt tilkynnti hann öllum odd-
vitum í læknishéraðinu að eftir 1. maí
lánaði hann engum manni, hvorki lyf né
læknishjálp, nema gegn hreppsábyrgð og
að hann gerði þar alla jafna, bæði ríka og
fátæka. Afleiðing þessa var meiriháttar
sprenging. Menn fyrtust. Í hugum fólks
var læknisstarfið svo tengt göfgi og líkn, að
það þótti nánast goðgá að nefna peninga
í sömu andránni. Hvort læknirinn og
fjölskylda hans hefði í sig og á var önnur
saga. Jón tók þessu með ró, og eftir 1. maí
hélt hann áfram að veita læknishjálp og
lyf eins og ekkert hefði í skorist. Hann
fékk allt sitt greitt. Nú fór líka að birta
til í efnahagsmálum héraðsbúa. Björn
Kristjánsson, sem eins og áður sagði,
var hlédrægur maður, dreif sig á þing
árið 1931. Hann sat þar til ársins 1934,
og svo heppilega vildi til, að lög um
kreppulánasjóð til hjálpar bændum voru
samþykkt á Alþingi 19. júní 1933. Þar
með voru bændur lausir við skuldaklaf-
ann og gátu unað glaðir við sitt.
Veturinn 1935–36 gekk mænuveikin
á ný. Ég veiktist þá en lamaðist ekki,
en mikil myndarhúsfreyja á Kópaskeri,
Guðrún Kristjánsdóttir, systir Björns,
lamaðist og beið þess aldrei bætur. Ég
man að ég var alltaf að hreyfa fæturna, þar
sem ég lá í rúminu, til að vita hvort ég
gæti það ekki áreiðanlega. Páll Sigurðsson
var þá læknir á Hofsósi og hafði áður
fengið veikina. Hann lamaðist svo mikið
að hann varð að fara úr héraðinu. Hann
átti þar hús og hringdi í Jón og bauð
honum héraðið og húsið. Mig langaði að
fara á æskuslóðirnar, en Jón afþakkaði.
Honum þótti vænt um fólkið í héraðinu
og þekkti þar hvert mannsbarn. Héraðið
var nú blómlegt, og þrátt fyrir ýmsa
árekstra hefur hann kunnað að meta
andstæðingana og ekki viljað skipta á
þeim og öðrum. Við áttum þarna þrátt
fyrir allt marga glaða og góða stund.
Systurnar Anna, Jódís og Jórunn, dætur Jóns
og Valgerðar. Einkaeign.