Skagfirðingabók - 01.01.2014, Blaðsíða 51
ÆVIMINNINGAR
51
En nú fór hann að þreytast og heilsan
að bila. Hann fór að athuga að kaupa
hús í Reykjavík og hætta læknisstörfum.
Tvö af börnunum voru komin til
Reykjavíkur, þ.e. elstu dæturnar tvær, og
Sigurður, sem tekið hafði ástfóstri við
vélar eftir kynni sín af þeim í frystihúsinu
á Kópaskeri, var að fara. Hann ætlaði að
verða vélstjóri. Anna, elsta dóttir okkar,
fékk góða skrifstofuvinnu að loknu
verslunarprófi árið 1937 og kynntist
þá Lárusi Jóhannessyni lögmanni, sem
var skólabróðir Jóns. Hún bað hann að
athuga um hús fyrir Jón. Þær systurnar,
Anna og Jórunn, leigðu þá stofu í
nýbyggðu húsi, Suðurgötu 15. Sigurður
Jónsson átti það hús þá. Lárus hafði þetta
hús til sölu og ráðlagði Jóni eindregið
að kaupa það. Þetta er stórt hús, þrjár
fjögurra herbergja íbúðir á þrem hæðum,
og tveggja herbergja íbúð í kjallara ásamt
þvottahúsi og geymslum. Húsið kostaði
80 þúsund krónur og útborgun átti að
vera 10 þúsund, hitt skuldabréf með
afborgunum. Þetta þótti mjög dýrt og
var svimandi upphæð fyrir okkur. Eftir
miklar vangaveltur og athugun á getu til
að standa undir þessu var húsið keypt í
apríl 1939, meðal annars af því, að þá var
gengisfelling yfirvofandi. Hernámið var
svo 10. maí 1940. Þá leit illa út, því að
Þjóðverjar voru að sökkva skipum hér upp
við landsteina og voru allir hræddir um,
að þeir sprengdu miðbæinn í Reykjavík
upp. Margir fluttu úr miðbænum og
byggðu sumir sumarbústaði í nágrenninu.
Það var því mikil áhætta að kaupa hús á
slíku hættusvæði. Ekki var heldur álitlegt
fyrir okkur að flytja út í þessa óvissu með-
an stríðið stóð yfir, svo Jón hélt áfram að
vera læknir fyrir norðan, þó að hann væri
þreyttur orðinn og ýmislegt annað, sem
fjölskyldan vildi gjarnan komast hjá að
þola lengur. Þetta dróst of lengi, því að
Jón veiktist á gamlaárskvöld árið 1943.
Ég var búin að leggja á borð og gera
hátíðlegt eins og venjulega þegar hann
kallaði mig inn í apótek og sagði mér að
hann treysti sér ekki til að sitja til borðs
með okkur. Hann fór í rúmið, en hann
hafði þá um daginn farið ferð í vondu
veðri, eins og svo oft áður, og kom kaldur
og veikur heim. Það fór nú þarna eins
og svo oft áður, ekki var hægt að koma
honum í góðar læknishendur, engar sam-
göngur, engin skip á ferðinni, sem sé
allar bjargir bannaðar. Læknir var sóttur
til Þórshafnar, en það var ungur læknir,
sem hafði tekið við af Eggert Einarssyni.
Læknirinn sagði þetta vera svæsna lungna-
bólgu og engin meðul dugðu. Jón and-
aðist 10. janúar 1944. Allir héraðsbúar
reyndust mér vel og söknuðu hans mikið.
Jón Árnason læknir um fimmtugt.
Einkaeign.