Skagfirðingabók - 01.01.2014, Síða 52
SKAGFIRÐINGABÓK
52
Seinna í þessum mánuði var Sveinn
sonur minn, 12 ára, í barnaskóla að renna
sér á hestasleða ásamt fleiri krökkum.
Einhver misskilningur kom upp á milli
þeirra, sem stýrðu sleðanum svo að hann
lenti á staur og Sveinn lærbrotnaði. Þá
varð aftur að sækja lækni til Þórshafnar.
Hann gerði að brotinu, en fór síðan heim.
Enginn var til að fylgjast með brotinu, en
mér fannst það ekki hafast nógu vel við og
var hrædd um að eitthvað væri athugavert
við það. Ég ákvað því að fara með
drenginn til Reykjavíkur og koma honum
á spítala. En þá fór eins og fyrri daginn,
það var engin skipsferð og vond tíð.
Seinast kom einhver smádallur, sem var að
fara til Siglufjarðar, en þangað átti einn af
Fossunum að koma á svipuðum tíma. Ég
réðist því í að taka dallinn til Siglufjarðar.
Smíðaður var kassi utan um drenginn, og
við vorum flutt í þennan bát og komið
fyrir á þilfarinu, því að kassinn komst ekki
annars staðar fyrir. Breitt var yfir okkur
segl til að forðast ágjöf. Báturinn kom við
á Húsavík til að taka tunnufarm. Sveinn
var fluttur í land í kassanum og við biðum
þar meðan þilfarið var hlaðið tunnum.
Síðan var kassinn með drengnum fluttur
um borð og settur upp á tunnufarminn
og reyrður niður. Við komumst samt
klakklaust til Siglufjarðar og fórum þar
um borð í Goðafoss, en kassinn komst
þá hvergi fyrir nema í reykingasalnum, en
ég fékk gott pláss. Við fengum ofsaveður
á leiðinni suður og svo vont fyrir Horn,
að kassinn með dregnum hentist út á gólf
og hann úr kassanum. Allir voru sérlega
góðir að bjarga þessu við, og við komumst
alla leið með guðs og góðra manna hjálp.
Sveinn var lagður inn á Landakotsspítala.
Þar þurfti að laga brotið verulega. Það
hafði ekki gróið rétt saman og fóturinn
var styttri, en svo vel tókst til með þetta
hjá þeim, sem fóru með hann, að hann
varð jafngóður með tímanum.
Þegar drengurinn var nú kominn í
góðar læknishendur og systur hans hér
búsettar, þá fór ég að hugsa til heimferðar
og fékk pláss með strandferðaskipi, sem
fór austur fyrir land, því að ís var fyrir
öllu Vesturlandi, og engin skip komust þá
leið. Þetta gekk allt vel þar til komið var
í Þistilfjörð. Þá hafði ísinn komist þangað
og skipið varð að snúa við og fara aftur til
Reykjavíkur. Ég varð að bíða í Reykjavík
í nokkurn tíma. Björn Kristjánsson var
þá á þingi og þurfti að komast norður.
Ég talaði við hann, því að ég vissi, að
hann fylgdist betur með ferðum en ég,
en ekki var nema um ferðir á sjó að ræða.
Hann var mjög fús að láta mig vita, ef úr
Sveinn Jónsson prentari.
Einkaeign.