Skagfirðingabók - 01.01.2014, Page 54
SKAGFIRÐINGABÓK
54
aðstöðu mína og hjálpuðu mér á þann
hátt að vera ekki með neinar kröfur, sem
ekki pössuðu við slíkar aðstæður.
Ég átti prjónavél, vefstól og spunavél
með öðrum konum á Kópaskeri. Ég dreif
mig því að spinna einspinnu þelband, sem
ég notaði í nærföt á börn mín og fór með
heilan ullarballa af því til Reykjavíkur í
því skyni að framleiða ullarnærföt á börn í
Reykjavík. Ég fór með prjónavélina mína
og vefstólinn suður og fékk um haustið
stúlkuna, sem hafði prjónað á vélina og var
vön því. Vefnaður var mín uppáhaldsiðja,
og ég hugsaði mér að vefa, ef það hentaði
betur til að framfleyta fjölskyldunni.
Við hófumst handa um haustið, stúlkan
prjónaði barnanærföt úr ullinni, sem
ég kom með, og ég setti upp vefstólinn
og hnýtti falleg smáteppi á gólf. Það var
seinleg vinna og ekki líkleg til að gefa eins
mikið í tekjur og nærfataframleiðslan,
sem strax varð mjög arðvænleg. Ég
hafði bara eina stúlku fyrsta veturinn á
prjónavélinni. Nærfötin seldust svo vel, að
við höfðum ekki undan að framleiða þau.
Ég hafði konur úti í bæ við að setja þau
saman og borgaði þeim visst á stykkið, en
keypti svo samansaumingarvél og hafði
fleiri stúlkur næsta vetur. Það var mikil
vöruþurrð og skömmtun, og því þörf
fyrir að framleiða íslenskan fatnað. Eins
vantaði efni í handavinnu fyrir skólana.
Ég fékk því stúlku til að vefa jafa2 til að
sauma í krosssaum, en það var eitt af því,
sem vantaði í skólana. Prjónastofan mín
varð fljótlega þekkt í bænum. Ég fékk
síma og nafn í símaskrána svohljóðandi:
Prjónastofan Suðurgötu 15 (Valgerður
Sveinsdóttir) sími 10536.
Ég vann lítið sjálf að framleiðslunni.
Ég hafði nóg með að hafa börn mín
fjögur og húshjálp á heimilinu og stjórna
prjónastofunni. Það var mikið prjónað úr
lopa, peysur á börn og fullorðna, allavega
litar. Ég bætti við stúlkum eftir þörfum
og öll framleiðslan seldist jafnóðum, svo
að ég sat aldrei uppi með neinar birgðir.
Börnin stóðu sig með ágætum. Þau
voru reglusöm og dugleg og áttu alltaf
öruggt og traust heimili, bæði fyrir
2 Jafi er gisofið dúkefni til að sauma í.
Húsið Suðurgata 15 í
Reykjavík. Saumastofan
var í kjallara ásamt sæl-
gætisgerðinni Völu þar sem
framleiddar voru kókosbollur.
Anna dóttir Valgerðar og
Jóns bjó á efstu hæðinni með
manni sínum Ólafi Jóhanni
Sigurðssyni rithöfundi, en
Sigurður Jónsson og Gyða
voru á miðhæðinni. Eftir að
Páll Sigurðsson lést fluttist
Valgerður einnig í húsið.
Ljósm.: Hjalti Pálsson.