Skagfirðingabók - 01.01.2014, Síða 62
SKAGFIRÐINGABÓK
62
sagði neitt. Læknirinn var ljúfmennskan
sjálf og gaf mér resept á teygjusokk til að
hafa um fótinn. Ég hrifsaði af honum
reseptið og strunsaði út án þess að kveðja.
Ég er nú orðin 81 árs gömul og bý enn
á hæðinni minni. Ég er búin að setja þar
upp notalegt elliheimili fyrir mig eina. Ég
hjálpa mér sjálf að öllu leyti nema að ég fæ
stúlku einu sinni í viku til að þrífa, og mér
er fært allt heim, því að ég get ekki gengið
lengur úti óstudd. Ég spila bridge einu
sinni í viku á Hallveigarstöðum og Anna
dóttir mín ekur mér þangað og sækir mig.
Börnin mín eiga öll bíl og taka mig út
þegar ég óska þess. Ég fæ oft heimsóknir,
bæði af börnum, barnabörnum og vinum.
Barnabörnin eru 17 og langömmubörnin
eru orðin 8. Kristín, dóttir Helenar
Soffíu, átta ára, er mikil vinkona mín og
sefur inni hjá mér á næturnar. Hún er fús
til þess, við höfum verið saman frá því að
hún fæddist. Mér finnst öryggi í því að
vera ekki ein, þó að ég hafi síma.
Ekkjur þurfa stundum að bregða
sér í karlmannslíki, það finn ég vel
og á ekkert bágt með það. Ég held að
enginn hafi þorað að misbjóða mér í
mínu ekkjustandi og að ég hafi haldið
fullri virðingu og vinsemd, þrátt fyrir
mitt stóra skap, sem ég beiti þegar mér
finnst það eiga við. Annars leiðist mér
allt nöldur og smámunasemi. Það getur
verið að einhverjum sé illa við mig, en
mér er ekki illa við neinn og hefur aldrei
verið. Ég er sátt með sjálfri mér við aðra,
því að ég hef alltaf látið í ljós vanþóknun
mína strax, ef einhver hefur verið, í stað
þess að byrgja hana inni. Krakkarnir
mínir voru vanir að segja að ég gysi, en
svo varð allt gott aftur.
Ég hef verið gæfumanneskja og haft
mikið barnalán. Ég hef þá trú, að sumir
séu fæddir til gæfu, en aðrir ógæfu,
sú skapgerð, sem úrslitum ráði, sé
meðfædd. Ég hef alltaf verið hagsýn og
raunsæ, séð hlutina í réttu ljósi og ekki
hætt mér út á hála braut, heldur kunnað
að velja þann veg, sem var til gæfu. Þó
hef ég oft verið fljótfær og gert vitleysur,
en ég hef lært að gefa mér tíma til að
hugsa um vandamálin og þá dettur mér
alltaf einhver lausn í hug.
Oft hefur verið svart framundan, en
allaf hefur ræst úr. Stundum finnst mér
ég varla vera sjálfráð, að það sé eitthvað,
sem stjórni lífi mínu, eitthvað sem ég
ekki þekki. En ég hef þá trú að guð hjálpi
aðeins þeim, sem hjálpa sér sjálfir.
Valgerður á efri árum.
Einkaeign.