Skagfirðingabók - 01.01.2014, Qupperneq 76
SKAGFIRÐINGABÓK
76
sína. Atvikið á Holtastöðum gæti bent
til þess. Hún sýndi sömu hörku þegar
kom að hennar eigin erfðamálum. Þetta
er ekki eina heimildin um að Þórunn á
Grund væri umtalsill.67
En dómar gengu í Hofsmálum á
Öxarárþingi bæði árin 1557 og 1559.
Lyktir mála verða þær að Páli og Margréti
er dæmd jörðin en ekki Þorbergi
Bessasyni, sem þó hafði fengið Hof sem
greiðslu frá Þórunni.68 Merkilegt er að
allir þeir dómar sem falla í Hofsmálum
vegna Páls og Margrétar grundvallast á
því að Margrét hafi aldrei gefið samþykki
sitt né jáyrði fyrir því að Páll seldi Jóni
Arasyni Hof á sínum tíma. Lesa má út
úr framangreindum skjölum að Margrét
hafi haldið stíft á rétti sínum, viljað rifta
samningum og ná tangarhaldi á Hofi á
nýjan leik. Og samkvæmt Jónsbók hafði
hún réttinn sín megin. Einnig er vel
skiljanlegur samslátturinn sem verður
milli Þórunnar og Margrétar. Hvorug
gerist líkleg til að vægja og öllum ráðum
er beitt. Deilurnar um Hof mögnuðust
ekki upp fyrr en Jón biskup var fallinn
frá, þess vegna er Þórunn svo sýnileg og
kemur sjálf fram í heimildum, meðan
Margrét er í skjóli eiginmanns og síðar
sona.
Um eftirhreytur Hofsmála má síðan
lesa á víð og dreif í skjölum.69 Þórunn
gafst ekki upp og hafði erindi sem erfiði á
alþingi árið 1572. Þá tókst Jóni Jónssyni
lögmanni að semja fyrir hennar hönd við
þá Pálssyni, Erlend, Bjarna og Jón. Þá er
líklegt að foreldrar þeirra hafi verið fallnir
frá. Páll og Margrét koma að minnsta
kosti ekki þar við sögu og bræðurnir
guldu Þórunni til fullrar eignar jörðina
Hof með öllum gögnum og gæðum.
Jón lofaði á móti að niður falli öll ákæra,
klögun og missætti sem milli Þórunnar
og Páls hefði farið.70 Jón lögmaður lagði
sjálfur til „af sínum eigin peningum
vegna Þórunnar fyrsögðum sonum Páls
Grímssonar, fyrir bón og tillögu Gunnars
bónda Gíslasonar, jörðina Holt í Tjarnar-
kirkjusókn fyrir 40 hundruð...“ Hér er
um að ræða Gunnar bónda á Víðivöllum
í Skagafirði sem giftur var Guðrúnu
Magnúsdóttur bróðurdóttur Þórunnar.
Greinilega er sterkur vilji til að setja niður
deilurnar um Hof, og menn tilbúnir að
fórna nokkru. „Þar með skyldi allt kvitt
og klárt og niðurslegið hvað hvor um sig
misþóknast hefði og hvorir öðrum hér
eftir til gagns og góða vera.“71
Eigendasaga Hofs, eins og Magnús
Björnsson leggur hana fram árið 1596,
stenst því að mestu leyti. Magnús var
ásamt Jóni bróður sínum aðalerfingi
Þórunnar. Þess vegna féll Hof í hans
hlut. Það féll einnig í hlut þeirra bræðra
að deila um útjarðir Hofs en það er
önnur saga.
Ekki er vafi á að deilurnar um Hof
hafa verið heiftúðugar. Guðbrandur
biskup leggur orð í belg í bréfi til Orms
lögmanns í janúar 1572. Hann segist
67 Guðbrandur biskup Þorláksson skrifar árið 1574 í bréfi til hennar, að hann hafi heyrt að hún tali illa um látna
menn og tiltekur þar afa sinn, Jón Sigmundsson. Hann ávítar hana fyrir að ljúga upp á látna menn og bendir
henni á, að djöfullinn sé faðir lyginnar (Bréfabók Guðbrands byskups Þorlákssonar, bls. 345–347).
68 ÍF XIII, bls. 215‒217 og ÍF XIII, bls. 421‒423.
69 Alþingisbækur Íslands I, bls. 69–70, 123–124, 127–128.
70 Alþingisbækur Íslands I, bls. 124.
71 Alþingisbækur Íslands I, bls. 125.