Skagfirðingabók - 01.01.2014, Page 79
AF ÞÓRUNNI JÓNSDÓTTUR OG HRAFNI BRANDSSYNI
79
kemur til eftir siðbreytingu, 1551, en þá
giftist hún Þorsteini Guðmundssyni frá
Felli í Kollafirði. Síðari tíma heimildir
segja frá fornum ástum og það er ef til
vill ekki fjarri sanni. Samtímaheimildir
segja okkur að Þórunn þekkti Þorstein
frá fyrri tíð. Hún giftist honum eftir að
faðir hennar var fallinn frá. Þorsteinn
var ekki auðugur maður og þar að auki
átti hann fjölda barna sem stóðu til arfs
eftir hann eða hann þurfti að sjá fyrir að
einhverju leyti. En Þórunn virðist hafa
gengið inn í dæmi hinnar góðu stjúpu,
og það bendir til þess að um fornar ástir
hafi verið að ræða.
Þórunn var stórauðug kona. Meðal
annarra eigna hennar var hæst metna
höfuðból landsins, Grund í Eyjafirði.
Hún var líka, eins og Guðbrandur biskup
lætur liggja að, ekki höll undir lúterskan
sið og hélt sínum kaþólsku venjum meðal
annars með því að axla samfélagslega
ábyrgð. Um það vitna afskipti hennar af
ættingjum, og samtímaheimildir greina
frá gjöfum til óskyldra manna. Þórunn var
gegnsýrð af kaþólskum hugsunarhætti,
og svo hefur hún verið örlát í eðli sínu
þótt hörð væri í viðskiptum. Gamalt
félagsmálakerfi var á hverfanda hveli og
nægilega öflugt ríkisvald ekki komið til
sögunnar þannig að framfærslumál voru
í uppnámi. En Þórunn hélt sínu striki
og útbýtti af efnum sínum líkt og heyra
má auðuga menn í nútíma tala um, að
auðurinn leggi þeim skyldur á herðar.
Saga Þórunnar er dæmi um hvernig
kona gat látið að sér kveða við hlið karla
og haft áhrif í miðaldasamfélaginu.
Valdakerfið var karllægt en umsvif
hennar sýna að konur gátu beitt sér
innan þess kerfis. Kannski má álykta, að
sú staðreynd að hún var kona segir ekki
meira um athafnasemi hennar en hitt,
að hún var auðug, tilheyrði valdamikilli
fjölskyldu og var gift áhrifamönnum.
Hún var kona og mátti vera það.
Hliðstæðar konur má vissulega finna í
samtíma hennar. Margrét Erlendsdóttir
kemur til dæmis fram á svipuðum
forsendum og Þórunn. Eiginkona og
dætur Björns Guðnasonar eiga fullt eins
margar vísanir í fornbréfum og Þórunn.
Með nokkurri vissu má segja að ríka
miðaldakonan hafði meiri möguleika
og hreyfanleika en sú vel stæða kona
sem lokaðist innan veggja heimilisins í
þróuðum borgarasamfélögum 19. aldar
og allt fram á seinni hluta 20. aldar.
Eitt málverka sem til er af Guðbrandi
Þorlákssyni biskupi.
Eigandi myndar: HSk.